Ólafur fór hamförum

Ólafur Guðmundsson skoraði níu mörk í sigri Kristianstad.
Ólafur Guðmundsson skoraði níu mörk í sigri Kristianstad. Ljósmynd/Emil Langvad

Ólafur Andrés Guðmundsson var besti leikmaður vallarins þegar lið hans Kristianstad vann Lugi, 25:23, í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum um sænska meistaratitilinn í handknattleik karla í dag. Leikið var í Kristianstad.

Ólafur fór hamförum, jafnt í vörn sem sókn. Hann skoraði níu mörk. Arnar Freyr Arnarsson skoraði þrjú mörk fyrri sænsku meistaranna en Gunnar Steinn Jónsson komst ekki á blað yfir þá sem skoruðu í leiknum.

Leikmenn Lugi voru með yfirhöndina lengst af fyrri hálfleik en Kristiandstad skoraði þrjú síðust mörk hálfleiksins. Staðan var þar af leiðandi jöfn að fyrri hálfleik loknum. Leikmenn Kristiandstad voru með frumkvæðið í síðari hálfleik þótt leikmenn Lugi hafi aldrei verið langt undan. 

Næsta viðureign liðanna fer fram á heimavelli Lugi á þriðjudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert