Þriggja leikja bann fyrir ógnandi hegðun

Sveinbjörn Pétursson, markvörður Stjörnunnar.
Sveinbjörn Pétursson, markvörður Stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Sveinbjörn Pétursson, markvörður Stjörnunnar í handknattleik karla, hefur verið úrskurðaður í þriggja leikja bann fyrir atferði sitt eftir leik Stjörunnar og Selfoss í úrslitakeppni úrvalsdeildarinnar á dögunum.

Selfyssingar unnu leikinn 30:28 og tryggðu sér þar með þátttöku í undanúrslitunum en að leik loknum virtist Sveinbjörn ætla að rjúka í dómara leiksins, þá Bjarka Bóasson og Gunnar Óla Gústafsson.

Í úrskurðu aganefndar HSÍ segir að Sveinbjörn fari í leikbann vegna „ógnandi hegðunar“ og að hann hafi „gert sig líklegan til að veitast að þeim.“

Liðsfélagar Sveinbjörns gengu á milli hans og dómaranna en skömmu síðar gerði hann sig líklegan til að veitast að eftirlitsmanni leiksins.

Það var því niðurstaða aganefndar að úrskurða Sveinbjörn í þriggja leikja bann og mun hann því missa að fyrstu þremur leikjum næsta tímabils sem hefst í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert