Veturinn var einn lærdómur fyrir mig

Snorri Steinn Guðjónsson
Snorri Steinn Guðjónsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Í fyrsta, öðru og þriðja lagi þá var gaman að vera í nýju hlutverki á keppnistímabilinu. Ég naut mín í þjálfarastarfinu þótt endalokin hafi því miður verið mjög súr,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, annar þjálfari Vals í handknattleik karla, í samtali við Morgunblaðið í gær spurður um hvernig hann hefði upplifað sitt fyrsta keppnistímabil sem þjálfari í efstu deild í handbolta.

Snorri Steinn flutti heim á síðasta sumri eftir 14 ár í atvinnumennsku sem handknattleiksmaður í Danmörku, Frakklandi og í Þýskalandi auk þess að hafa verið einn mikilvægasti leikmaður íslenska landsliðsins á sama tímabili. Hann lék minna með Val en margir reiknuðu með en einbeitti sér þess í stað að þjálfuninni og stjórnun Valsliðsins ásamt Guðlaugi Arnarssyni, meðþjálfara sínum.

Valur átti Íslands,- og bikarmeistaratitil að verja á keppnistímabilinu. Kröfurnar voru þar af leiðandi fyrir hendi á Hlíðarenda og þess vegna talsverð vonbrigði að falla úr keppni í átta liða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Valur lá fyrir Haukum í tveimur leikjum, þeim síðari á mánudagskvöldið. Íslandsmeistarar síðasta ár eru þar með komnir í sumarfrí, mánuði fyrr en á síðasta ári.

Naut mín í krefjandi hlutverki

„Ég naut mín virkilega vel í hlutverki þjálfarans. Að sama skapi var það krefjandi hlutverk sem reyndar kom ekki á óvart. Varðandi leik Valsliðsins þá fannst mér liðið vera jafnt og þétt á réttri leið allt keppnistímabilið og ég trúði því, allt þangað til sást í hvað stefndi í lokaleik okkar á Ásvöllum, að við gætum gert það gott þegar upp yrði staðið,“ sagði Snorri Steinn sem þótti deildarkeppnin vera jöfn og skemmtileg. Valur hafnaði í fjórða sæti, þremur stigum á eftir deildarmeisturum ÍBV.

Sjá ítarlegt viðtal við Snorra Stein í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert