Þriggja marka veganesti til Turda

ÍBV vann Potaissa Turda með þriggja marka mun, 31:28, í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum Áskorendakeppni Evrópu í handknattleik karla í Vestmannaeyjum í dag. ÍBV var með yfirhöndina í leiknum allan leikinn og var m.a. tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:13.

ÍBV hefur þar með þriggja marka veganesti með í síðari leikinn sem fram fer í Turda á sunnudaginn eftir rúma viku. ÍBV var margoft nærri því að ná fimm marka forskoti á lokakaflanum gegn ólseigum leikmönnum rúmenska liðsins sem gáfu ekki þumlung eftir. Fyrst og fremst þá fóru Eyjamenn illa með mörg upplögð tækifæri í leiknum, kom þar til að markverðir Turda og eins markstangirnar voru oft í vegi skot þeirra í leiknum.

Eyjamenn voru með yfirhöndina allan fyrri hálfleikinn en leikurinn var nokkuð kaflaskiptur. ÍBV tók skorpur og náði nokkrum sinnum þriggja marka forskoti, 7:5, 9:6, 12:9 og 13:10. Turdamenn voru aldrei langt undan og náðu oft að nýta sér hver mistök Eyjamanna. Markvörður þeirra Ludovic Varo varði á tíðum vel og reyndist leikmönnum ÍBV hindrun á vegi þeirra að meira forskoti.

Theodór Sigurbjörnsson fór á kostum í fyrri hálfleik. Hann skoraði sex mörk, flest eftir hraðaupphlaup, og tvö þeirra eftir að hann vann boltann af leikmönnum Turda þar sem þeir gættu ekki að sér.

Vörn ÍBV, 5/1, reyndist leikmönnum Turda erfið í fyrri hálfleik. Þeim gekk á tíðum illa að leysa hana upp.

Eyjamenn reyndu eins og kostur var að hleypa upp hraða leiksins enda er slíkur leikur andstæður vilja leikmanna Turda. Þeir eru stórir og þunglamalegir en jafnframt nautsterkir. Þeim líkar best að halda hraðanum niðri og gefa sér góðan tíma til þess  að verjast og sækja.

Þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks var munurinn aðeins tvö mörk, 15:13, eftir að síðasta skot fyrri hálfleiks, frá Róberti Aroni Hostert , small í þverslánni.  Þriggja marka forskot í hálfleik hefði svo sannarlega verið kærkomið fyrir lið ÍBV.

ÍBV-liðið hóf síðari hálfleik af krafti og náði fljótlega þriggja marka forskoti. Efir rúmlega tíu mínútna leik voru Eyjamenn komnir fjórum mörkum yfir, 23:19, og áttu þess kost að ná fimm marka forystu. Það lánaðist ekki og Turdamenn minnkuðu muninn í tvö mörk, 24:22, þess í stað þegar hálfleikurinn var svo gott sem hálfnaður.

ÍBV bætti aðeins leik sinn og náði fjögurra marka forskoti á ný en gekk brösuglega að bæta enn við forskotið þrátt fyrir tækifæri þar. Kári Kristján Kristjánsson tryggði þriggja marka sigur örfáaum sekúndum fyrir leikslok. Það munar um hvert mark áður en erfiður útivöllur verður heimsóttur um næstu helgi.

Liðin eru um flest ólík. ÍBV vill leiks hraðan handknattleik á sama tíma og leikmenn Turda eru þungir ofg stórir og vilja halda hraða leiksins niðri og hnoðast áfram. Liðið leikur gamaldags austur-evrópskan handknattleik og gerir það ágætlega. Menn þekkja sín takmörk og gera fá mistök, færri en Eyjamenn og þar lá e.t.v. munurinn að nokkru leyti þegar upp var staðið.

Theodór Sigurbjörnsson fór á kostum í leiknum í dag og skoraði 13 mörk. Kári Kristján Kristjánsson var næstur með fjögur mörk.

ÍBV 31:28 Potaissa Turda opna loka
60. mín. Raul Ironim Marian (Potaissa Turda) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert