Sundurspiluðum þá en nýttum illa færin

Sigurbergur Sveinsson í skotstöðu í leiknum við Turda í Eyjum …
Sigurbergur Sveinsson í skotstöðu í leiknum við Turda í Eyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við sundurspiluðum leikmenn Turda á löngum köflum í leiknum en vantaði oft upp á að reka smiðshöggið á sóknir okkar, koma boltanum í markið. Við fengum nóg af færum til þess að skora mikið fleiri mörk,“ sagði Sigurbergur Sveinsson, leikmaður ÍBV, eftir þriggja marka sigur, 31:28, á Turda í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum Áskorendakeppni Evrópu í handknattleik í Vestmannaeyjum í dag.

„Herslumuninn vantaði upp á að ná sex til sjö marka forskoti. Ég er hinsvegar bjartsýnn fyrir síðari leikinn því þau atriði sem við þurfum að bæta tel ég vera auðvelt að bæta,“ sagði Sigurbergur sem skoraði þrjú mörk í leiknum í dag. Síðari viðureign ÍBV og Turda fer fram í Turda í Rúmeníu á sunnudaginn eftir viku.

Sigurbergur segir leikmenn Turda vera erfiða viðureignar. Þeir séu þungir, leika hægt og fara vel með boltann, gera fá mistök.  „Þetta er hörkulið sem gefur ekkert eftir,“ sagði Sigurbergur sem býr sig undir erfiðan leik í Turda. Hann er hinsvegar bjartsýnn á þriggja marka forskot eftir leikinn í dag sem gott upplegg fyrir síðari leikinn. Hann telur ÍBV eiga að geta unnið á ný í Turda.

„Við verðum bara að skora úr okkar færum. Við lékum góðan sóknarleik og verðum að halda því áfram ásamt að bæta nýtingu úr opnum færum,“ sagði Sigurbergur Sveinsson, leikmaður handknattleiksliðs ÍBV í samtali við mbl.is í Vestmannaeyjum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert