Kálið er ekki sopið þótt í ausuna sé komið

Stefán Arnarson, þjálfari Fram, fer yfir málin með leikmönnum sínum.
Stefán Arnarson, þjálfari Fram, fer yfir málin með leikmönnum sínum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Frábær varnarleikur í fyrri hálfleik lagði grunninn að sigrinum,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram, glaður í bragði eftir sigur á Val, 29:25, í þriðja úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik í Valshöllinni í kvöld.

„Við fengum mörg mörk eftir hraðaupphlaup, fyrstu og aðra bylgju auk þess sem sóknarleikurinn var góður. Við stilltum vel upp og náðum að opna vörn Vals í nærri því hverri einustu sókn í fyrri hálfleik,“ sagði Stefán sem lagði sérstaka áherslu á góðan leik síns liðs í þeim hluta leiksins enda var þá lagður grunnurinn að öruggum sigri liðsins.

„Eftir góða byrjun af okkar hálfu þar sem við náðum sex marka forskoti, 9:3, eftir um fimmtán mínútur þá vorum við með að jafnaði sex marka forystu þar til undir lokin að Valur náði áhlaupi og minnkaði muninn í þrjú mörk. En þetta var í okkar höndum,“ sagði Stefán enn fremur en lið hans hefur nú tvo vinninga gegn einum í kapphlaupinu um Íslandsmeistaratitilinn og þar aðeins einn vinning til viðbótar til að verða Íslandsmeistari  annað árið í röð.

Spurður hvort Framliðið myndi ljúka einvíginu með sigri á fimmtudagskvöldið á heimavelli gaf Stefán lítið út á það. „Við eigum jafnmikla möguleika og Valur til þess að vinna þetta einvígi. Það þarf þrjá vinninga til þess að verða meistari,“ sagði Stefán og tók undir með blaðamanni að kálið væri ekki sopið þótt í ausuna væri komið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert