Viljum útrýma svona höfuðhöggum

Gunnar Magnússon kemur skilaboðum til sinna manna í Eyjum í …
Gunnar Magnússon kemur skilaboðum til sinna manna í Eyjum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, var að mörgu leyti ánægður með leik sinna manna, þrátt fyrir tveggja marka tap í fyrsta leik liðsins gegn ÍBV í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik.

„Mér fannst við spila þetta vel fyrir utan stuttan kafla í fyrri hálfleik þar sem við missum hausinn, þrátt fyrir það fannst mér við spila þetta vel. Ég var ánægður með margt í dag, þetta er ein sókn, til að frá, það er stutt á milli og þetta var stöngin út hjá okkur í dag, þetta féll með þeim í dag ekki okkur. Þetta er svekkjandi að fara ekki með sigur héðan, en þrátt fyrir það var frammistaðan hjá strákunum góð.“

Gunnar talar um slakan kafla í fyrri hálfleik þar sem Eyjamenn vinna upp nokkurra marka forskot en þrátt fyrir þann kafla spila Haukar virkilega vel í upphafi seinni hálfleiks og komast tveimur mörkum yfir 17:19 þegar rúmar tíu mínútur eru eftir.

„Við vorum enn inni í leiknum og erum kannski klaufar í lokin að klára þetta ekki. Mér fannst vörnin detta niður síðustu tíu mínúturnar, það var ég mest svekktur með. Sóknarlega var þetta erfitt báðu megin, mér fannst okkar varnarleikur detta niður síðustu tíu og það er stærsta ástæðan í þessu.“

Þetta eru tveir frábærir markmenn

Þessa leiks verður líklega minnst fyrir frábæra frammistöðu markvarða liðanna, þeir gerðu sóknarmönnum andstæðinganna mjög erfitt fyrir.

„Það kemur engum á óvart, þetta eru tveir frábærir markmenn, þetta er það sem bæði liðin reikna með frá sínum markvörðum og svona verður þetta áfram. Það er stutt á milli þessara liða, þetta eru tvö frábær lið og við þurfum að koma tvíefldir í næsta leik.“

ÍBV spilaði sig í ögn betri færi í leiknum en Björgvin Páll Gústavsson, markvörður gestanna, varði ótrúlegt magn af dauðafærum frá leikmönnum ÍBV.

„Ef maður tekur saman okkar hornafæri og línufæri, þá ertu kominn örugglega í töluverðan fjölda líka af færum, við sköpuðum líka færi á móti. Sóknarlega er ég alls ekkert óánægður með strákana.“

Þetta leit illa út

Undir lok leiksins sauð upp úr og stuttu seinna fékk Magnús Stefánsson, fyrirliði ÍBV, rautt spjald. Hvað fannst Gunnari um frammistöðu dómaranna í leiknum?

„Þetta var erfiður leikur að dæma og þeir gerðu allt sem þeir gátu, að mínu mati voru þeir flottir og ekkert við þá að kvarta, þeir gáfu allt í þetta og ég er ekkert að kvarta yfir dómgæslunni.“

Telur Gunnar að Magnús fái bann fyrir brotið á Daníel Þór Ingasyni?

„Frá mínu sjónarhorni leit þetta illa út, auðvitað þarf maður að skoða þetta á myndbandi en ég held að í handboltaforystunni séu allir sammála því að við viljum útrýma svona höfuðhöggum. Ég á eftir að skoða þetta á myndbandi en ef að brotið er slæmt, veit ég að hart verður tekið á því, ég þarf að skoða þetta aftur. Ég held að það séu allir sammála því að þetta viljum við ekki sjá, ef að þetta var þannig.“

Daníel Þór og Adam Haukur Baumruk áttu flottan leik í dag en þeir skora 16 af 22 mörkum Haukaliðsins, saknar Gunnar framlags frá fleiri leikmönnum sóknarlega?

„Atli var meiddur og gat ekki komið, Tjörvi er á annarri löppinni, ég veit ekki hversu mikið við eigum að fara fram á þar, mér fannst færin sem við fengum úr hornunum og af línunni vera eitthvað sem við hefðum átt að nýta betur, allavega úr hornunum. Þeir koma sterkir í næsta leik.“

Hefði viljað spila þéttar

Árni Þór Sigtryggsson og Pétur Pálsson voru fjarri góðu gamni í dag, býst Gunnar við þeim í næsta leik?

„Það er langt í Pétur, en við skoðum stöðuna með Árna og Atla líka. Við gefum allt í þetta og fórnum okkur eins og við getum.“

Eyjamenn halda nú út til Rúmeníu í verkefni í undanúrslitum Áskorendakeppni Evrópu, þar sem liðið hefur þriggja marka forystu eftir fyrri viðureign liðanna. Heldur Gunnar að Haukar eigi þessa hvíldardaga fram að leik á Eyjamenn, fyrir næsta leik í einvíginu?

„Ég hefði viljað spila þéttar, það er oft í úrslitakeppni að það er gott að vera í góðum takti, persónulega hefði ég viljað spila þéttar. Við styðjum Eyjamenn í sinni Evrópubaráttu og vonum að þeim gangi vel, ef við þurfum að pása fyrir þá, þá gerum við það, til þess að styðja íslenskan handbolta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert