Vinnur Selfoss þriðja leikinn í röð gegn FH?

Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson lyftir sér upp fyrir framan FH-vörnina.
Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson lyftir sér upp fyrir framan FH-vörnina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Selfoss og FH hefja í kvöld einvígið í undanúrslitum úrvalsdeildar karla í handknattleik en liðin mætast í fyrsta leiknum á Selfossi í kvöld.

Selfyssingar höfðu betur í báðum leikjum liðanna í Olís-deildinni í vetur. Í fyrri leiknum á Selfossi höfðu heimamenn betur, 24:23, og Selfyssingar hrósuðu sigri í Kaplakrika, 34:29.

Í átta liða úrslitunum unnu Selfyssingar lið Stjörnunnar í tveimur leikjum og FH-ingar gerðu slíkt hið sama í viðureigninni á móti Aftureldingu.

FH-ingar léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð en töpuðu fyrir Valsmönnum í oddaleik en Selfyssingar eru í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í 24 ár.

Flautað verður til leiks á Selfossi klukkan 19.30 og verður fylgst með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert