Verður mitt versta tímabil á ferlinum

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Ljósmynd/Barcelona

„Nei, nei þetta eru ekkert alvarleg meiðsli. Þetta er bara smávægileg tognun í kálfanum og ég ætti að verða fljótur að ná mér,“ sagði landsliðsmaðurinn Aron Pálmarsson leikmaður spænska stórliðsins Barcelona í samtali við mbl.is í morgun.

Aron meiddist í deildarleiknum gegn Zamora um síðustu helgi og er óvíst hvort hann verði búinn að ná sér fyrir bikarhelgina sem verður í Madríd 4.-6. maí.

„Það er tæpt að ég nái bikarhelginni. Með svona meiðsli er alltaf hætti á að þau taki sig upp ef maður fer of snemma af stað. Ef ég verð 100% klár þá spila ég en annars ekki. En ég verð alla veganna klár í slaginn með landsliðinu í júní þegar við mætum Litháen í umspilinu um sæti á HM. Það kemur ekki annað til greina en að tryggja okkur sæti á HM,“ sagði Aron.

Á sínu fyrsta tímabili með Barcelona hefur Aron þegar unnið Spánarmeistaratitilinn og deildabikarmeistaratitilinn en Börsungar féllu úr leik í Meistaradeildinni þegar þeir töpuðu fyrir franska liðinu Montpellier í 16-liða úrslitunum og þau úrslit urðu mikið áfall fyrir Aron og félaga.

„Miðað við spilamennskuna í þessum tveimur leikjum á móti Montpellier þá áttu Frakkarnir bara skilið að fara áfram. Við fórum hins vegar afar illa að ráði okkar í heimaleiknum. Ég hélt að við værum að gera út um einvígið þegar við náðum sex marka forystu en því miður misstum við taktinn og því fór sem fór. Við ætluðum okkur stóra hluti í Meistaradeildinni,“ sagði Aron, sem varð í tvígang Evrópumeistari með Kiel og hefur tvisvar sinnum verið valinn besti leikmaðurinn á úrslitahelginni í Meistaradeildinni, „Final four“.

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Ljósmynd/Barcelona

Spurður út í hans fyrsta tímabil með Barcelona segir Aron;

„Það var geggjað að koma loksins í þennan klúbb og í þetta umhverfi. Ég er hrikalega ánægður hérna en þetta fyrsta tímabil hefur tekið á mann. Ég segi það núna að þetta mun verða mitt versta tímabil á ferlinum. Það gekk hrikalega mikið á varðandi félagaskiptin frá Veszprém og núna horfi ég svolítið á þetta að klára þetta verkefni með landsliðinu í júní og byrja á núlli með Barcelona. Ég er svolítið að bíða eftir því að næsta tímabil hefjist. Ég veit að það stendur til að bæta vel í hópinn fyrir næsta tímabil. Þegar Barcelona fer ekki lengra en í 16-liða úrslitin í Meistaradeildinni þá þarf klárlega að gera eitthvað,“ sagði Aron.

Spænskir fjölmiðlar greina frá því að franski línumaðurinn Ludovic Fabrégas komi til Barcelona í sumar frá Montpellier og þá greindu danskir fjölmiðlar frá því í vikunni að landsliðsmaðurinn Casper Mortensen gangi í raðir Börsunga frá þýska liðinu Hannover-Burgdorf eftir tímabilið og danski markvörðurinn Kevin Möller komi til liðsins frá þýska liðinu Flensburg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert