FH-ingar jöfnuðu metin

Selfyssingurinn Elvar Örn Jónsson með boltann í leiknum í kvöld.
Selfyssingurinn Elvar Örn Jónsson með boltann í leiknum í kvöld.

FH jafnaði metin gegn Selfossi með 37:33-sigri í einvígi liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla í Kaplakrika í dag. Liðin hafa nú unnið sitthvorn heimaleikinn.

Fyrsta mark leiksins lét bíða eftir sér í um fjórar mínútur og skömmu síðar var staðan 4:1, heimamönnum í vil. Var það fyrst og fremst Ágústi Elí Björgvinssyni að þakka í marki FH-inga en hann varði í gríð og erg í fyrri hálfleik, oft á tíðum stórkostlega.

Selfyssingum tókst smátt og smátt að vinna sig aftur inn í leikinn en FH-ingar héldu þó forystunni og voru 17:15 yfir í hálfleik. Ágúst Elí var með 11 varin skot í fyrri hálfleik og Gísli Þorgeir Kristjánsson átta mörk fyrir FH.

Gísli Þorgeir náði ekki að láta mikið að sér kveða í fyrsta leiknum, enda fékk hann rautt spjald eftir aðeins stundarfjórðung á Selfossi, en hann var greinilega staðráðinn í að kvitta fyrir það í kvöld og reyndist gestunum ansi erfiður viðureignar, endaði með 13 mörk. Árni Steinn Steinþórsson meiddist í fyrri hálfleik og þurfti að hætta leik hjá Selfossi.

FH-ingar héldu áfram að spila vel eftir hlé og var munurinn fimm mörk á tímabili en Selfyssingar komu þó með áhlaup á lokakaflanum. Einar Sverrisson var þeirra besti maður, skoraði 11 mörk, og var munurinn um tíma aðeins tvö mörk en FH-ingar stóðu af sér veðrið og jöfnuðu einvígið.

FH 37:33 Selfoss opna loka
60. mín. Ásbjörn Friðriksson (FH) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert