FH knúði fram oddaleik í framlengingu

Hergeir Grímsson skýtur að marki FH í kvöld.
Hergeir Grímsson skýtur að marki FH í kvöld. mbl.is/Hari

FH-ingar knúðu fram  oddaleik gegn Selfossi í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik með sigri, 41:38, í framlengdum leik í Kaplakrika í kvöld. Oddaleikur liðanna fer fram á Selfossi á miðvikudagskvöld.

FH-ingar skoruðu tvö síðustu mörkin í venjulegum leiktíma, það síðara þegar tvær sekúndur voru til leiksloka, 34:34. Þar með kom til framlengingar þar sem heimaliðið var sterkara og vann að lokum öruggan sigur. 

Selfoss var lengst af sterkara liðið og var með um þriggja til fjögurra marka forskot í fyrri hálfleik. FH-ingum tókst með útsjónarsemi að minnka muninn í tvö mörk fyrir hálfleik, 17:15.

Síðari hálfleikur var hinsvegar lengst af jafn og spennandi. FH komst yfir, 23:22, snemma hálfleiksins en annars var frumkvæðið í höndum leikmanna Selfoss. Þeir voru tveimur mörkum yfir og með boltann þegar 79 sekúndur voru til leiksloka. Þá féll þeim allur ketill í eld og FH-ingar nýttu sér það og skoruðu tvö mörk á síðustu mínútu venjulegs leiktíma, bæði mörkin skoraði Arnar Freyr Ársælsson.

Eins og fyrr segir var FH-liðið sterkara í framlengingunni.

Leikurinn var stórskemmtilegur og sem fyrr í viðureignum liðanna í undanúrslitum var sóknarleikurinn í öndvegi en varnarleikur og markvarsla síðri. 

Ljóst er að það mun sjóða á keipum á Selfossi á miðvikudagskvöld þegar liðin mætast í oddaleik um hvort þeirra leikur við ÍBV til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn.

Arnar Freyr og Óðinn Þór Ríkharðsson skoruðu 10 mörk hvor fyrir FH og voru markahæstir. Einar Sverrisson skoraði 13 mörk fyrir Selfossliðið.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is eins og sést hér að neðan.

FH 41:38 Selfoss opna loka
70. mín. Selfoss tapar boltanum
mbl.is