Hildigunnur einum leik frá meistaratitli

Hildigunnur Einarsdóttir.
Hildigunnur Einarsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Hildigunnur Einarsdóttir, landsliðskona í handknattleik, nálgast austurríska meistaratitilinn óðfluga með liði sínu Hypo eftir öruggan sigur í fyrri rimmu Hypo og Stockerau í úrslitaeinvíginu um titilinn í dag, 33:22.

Hypo vann deildina með yfirburðum, tapaði einum leik en vann 21 leik, og var 18:10 yfir í hálfleik gegn Stockerau í dag. Þegar yfir lauk munaði svo ellefu mörkum á liðunum, lokatölur 33:22.

Hildigunnur skoraði þrjú mörk fyrir Hypo í leiknum, en liðið hefur haft mikla yfirburði í austurrískum handknattleik síðustu ár. Fari svo að liðið tapi niður ellefu marka forskoti sínu í síðari leiknum yrði það í fyrsta sinn í 42 ár sem liðið verður ekki austurrískur meistari.

mbl.is