Tandri spilar til úrslita í Danmörku

Tandri Már Konráðsson.
Tandri Már Konráðsson. Ljósmynd/heimasíða Skjern

Tandri Már Konráðsson komst í kvöld í úrslitaeinvígið um danska meistaratitilinn í handknattleik með liði sínu Skjern eftir magnaðan sigur gegn GOG, 38:30, í oddaleik í undanúrslitum.

Skjern stóð uppi sem deildarmeistari en GOG hafnaði þar í öðru sæti, aðeins stigi á eftir. GOG vann fyrsta leikinn í undanúrslitaeinvíginu 31:28 en Skjern jafnaði metin með því að vinna annan leikinn 24:23 og grípa þurfti til oddaleiks.

Framan af var á brattann að sækja hjá Tandra og félögum, en Skjern var undir í hálfleik 17:14. Um miðjan síðari hálfleik kom hins vegar vendipunktur leiksins. Skjern var undir 23:26 en breytti stöðunni í 28:26 og leit aldrei til baka eftir það. Lokatölur stórsigur Skjern, 38:30.

Tandri skoraði ekki fyrir Skjern í leiknum, en hann leikur fyrst og fremst sem varnarmaður. Liðið mun mæta Bjerringrbo-Silkeborg í úrslitaeinvíginu, en GOG mætir mætir Íslendingaliðinu Aalborg, undir stjórn Arons Kristjánssonar, í einvígi um bronsverðlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert