Búinn að biðjast afsökunar

Einar Rafn Eiðsson í baráttu við Eyjamanninn Sigurberg Sveinsson.
Einar Rafn Eiðsson í baráttu við Eyjamanninn Sigurberg Sveinsson. mbl.is/Hari

Slagurinn um Íslandsmeistaratitilinn í úrvalsdeild karla í handknattleik heldur áfram í Vestmannaeyjum í kvöld en þá mætast ÍBV og FH í þriðju rimmu liðanna.

Staðan er jöfn í einvíginu. Eyjamenn unnu fyrsta leikinn á heimavelli sínum á laugardaginn 32:26 en FH-ingar svöruðu fyrir sig með því að innbyrða sigur í Kaplakrika í fyrrakvöld 28:25.

Mbl.is sló á þráðinn til Einars Rafns Eiðssonar þar sem hann var staddur á Hótel Vestmannaeyjar en FH-ingar fóru til Eyja í gær.

„Það er mikill hugur í okkur og ég held að þetta sé góður dagur til að vinna hér í Eyjum. Við mættum hingað með gott veganesti eftir góðan leik í Krikanum í fyrrakvöld. Þegar út í svona úrslitaeinvígi er komið þá snýst þetta mikið um það hvort liðið vill sigurinn meira og er grimmari,“ sagði Einar Rafn.

Það var talsverður hiti í leiknum í fyrrakvöld þar sem pústrarnir gengu á milli. Einar Rafn kom við sögu þar eins og margir fleiri leikmenn. Í síðari hálfleik var Einari vikið af velli fyrir slá til mótherja í sókn FH-liðsins. Eyjamenn vildu meina að Einar hefði átt að fá rautt spjald fyrst dómararnir á annað borð dæmdu á brotið.

„Það kæmi mér ekkert á óvart ef harkan yrði enn meiri í kvöld. Það er búinn að vera æsingur og derringur á milli manna og það er alveg víst að við munum ekkert gefa eftir í þeirri baráttu.

Menn mega alveg halda því fram að ég hafi gefið leikmanni ÍBV viljandi olnbogaskot. En málið er að ég hafði ekki hugmynd um það hvar ég var með olnbogann. Það var enginn vilji í þessu og þetta var bara óviljaverk eins og gengur og gerist. Ég er búinn að biðjast afsökunar og það er allt í góðu. Óskastaðan hjá okkur er vinna leikinn í kvöld og eiga þar með möguleika á að vinna titilinn í Krikanum á laugardagskvöldið. Ef við náum að stilla upp okkar vörn þá finnst mér við hafa mjög góð tök á þeim,“ sagði Einar Rafn.

Flautað verður til leik í Eyjum klukkan 18.30 og verður leikurinn í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is