Ræður sá þriðji úrslitum?

Kári Kristján Kristjánsson er hér tekinn föstum tökum af Ísak …
Kári Kristján Kristjánsson er hér tekinn föstum tökum af Ísak Rafnssyni, Ágústi Birgissyni og Arnari Frey Ársælssyni. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV og FH mætast í þriðja sinn í úrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 18.30, klukkutíma fyrr en upphaflega var áætlað.

Er það gert til þess að stuðningsmenn FH geti farið til síns heima með Herjólfi síðar um kvöldið en áætlað er að Herjólfur leysi landfestar í Vestmannaeyjahöfn klukkan 21.

Oft hefur verið sagt að þriðji leikurinn í rimmunni um Íslandsmeistaratitilinn skipti einna mestu fyrir framhaldið. Liðið sem vinni þriðja leik eigi oftar en ekki Íslandsbikarinn næsta vísan.

Síðan úrslitakeppni var tekin upp á ný vorið 2009 eftir nokkurt hlé hefur það lið sem vinnur þriðja leik í úrslitarimmunni fimm sinnum orðið Íslandsmeistari. Í fjórum tilfellum hefur það ekki orðið raunin.

*2009 - Haukar – Valur, 3:1. Haukar unnu þriðja leik liðanna á heimavelli sínum, 28:25. Kári Kristján Kristjánsson var markahæstur Hauka með sjö mörk. Hann fékk rautt spjald við þriðju brottvísun undir lok leiksins.

*2010 - Haukar – Valur, 3:2. Haukar unnu öruggan sigur á Val í þriðja leik, 30:24, að viðstöddum liðlega 1.800 áhorfendum á heimavelli sínum. Sigurbergur Sveinsson fór á kostum í liði Hauka og skoraði níu mörk.

*2011 - FH – Akureyri, 3:1. Akureyringar unnu þriðja leikinn sem fram fór í Höllinni á Akureyri, 23:22, að viðstöddum 1.050 áhorfendum. Sveinbjörn Pétursson, markvörður Akureyrar, átti stórleik og varði 24 skot.

*2012 - HK – FH, 3:0. HK tók úrslitakeppnina með trompi þetta árið og tapaði ekki leik. Sigur í þriðja og síðasta leik einvígisins, 28:26, í Kaplakrika. Bjarki Már Elísson skoraði 9 mörk fyrir HK en besti maður leiksins var Arnór Freyr Stefánsson, markvörður HK. Hann varði 20 skot.

*2013 - Fram – Haukar, 3:1. Eini sigur Hauka í rimmunni var á eigin heimavelli í þriðja leik, 27:24. Aron Rafn Eðvarðsson átti góðan leik í marki Hauka og varði 15 skot á sama tíma og markverðir Fram voru langt frá sínu besta.

*2014 - ÍBV – Haukar, 3:2. Haukar unnu þriðja leikinn á eigin heimavelli, 26:19, í leik þar sem Eyjamenn voru langt frá sínu besta. Ekki bætti úr skák að Giedrius Morkunas, markvörður Hauka, fór hamförum og varði 22 skot.

*2015 - Haukar – Afturelding, 3:0. Í annað sinn réðust úrslit Íslandsmótsins í aðeins þremur leikjum. Haukar undirstrikuðu yfirburði sína í úrslitakeppninni með þriðja sigrinum á Aftureldingu að Varmá mánudaginn 11. maí, 27:24. Janus Daði Smárason átti hvern stórleikinn á fætur öðrum. Hann var besti leikmaður Hauka í sigurleiknum.

*2016 - Haukar – Afturelding, 3:2. Afturelding vann þriðja leikinn, 42:41, eftir tvær framlengingar og gríðarlega spennu. Adam Haukur Baumruk var maður leiksins. Hann skoraði 15 mörk fyrir Hauka.

*2017 - Valur – FH, 3:2. Í fyrsta sinn í sögu úrslitakeppninnar unnu liðin ekki einn leik á eigin heimavelli. Valsmenn komu, sáu og sigruðu í Kaplakrika, lokatölur 29:24, að viðstöddum 1.750 áhorfendum þriðjudaginn 16. maí. Anton Rúnarsson var atkvæðamestur Valsmanna með sex mörk.

Flautað verður til leiks í Eyjum í kvöld klukkan 18.30 og verður leikurinn í beinni textalýsingu hér á mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert