Sjö marka sigur Eyjamanna

Eyjamenn komust í 2:1 í úrslitaeinvígi sínu um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla gegn FH í Vestmannaeyjum í kvöld.

Leikurinn endaði með öruggum sjö marka sigri ÍBV, 29:22. Róbert Aron Hostert var atkvæðamestur í liði Eyjamanna með átta mörk. Agnar Smári Jónsson skoraði sjö. Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæstur í liði FH með sjö mörk.

Eyjamenn byrjuðu leikinn strax að krafti og komust meðal annars í 7:2 eftir 15 mínútna leik. Róbert Aron fór fyrir markaskorun ÍBV í fyrri hálfleik en hann þegar flautað var til leikhlés var hann kominn með fimm mörk. FH-ingar minnkuðu muninn hægt og rólega er á leið fyrri hálfleikinn en staðan var 13:10 í hálfleik.

FH-ingar misstu Gísla Þorgeir Kristjánsson meiddan af velli eftir aðeins 15 mínútna leik og hann kom ekkert við sögu eftir það.

Eyjamenn héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og þegar 15 mínútur voru til leiksloka var forysta þeirra orðin sex mörk, 23:17. Eyjamenn sigldu svo öruggum sjö marka sigri í höfn, 29:22.

Fjórði leikur liðanna fer fram í Kaplakrika á laugardaginn klukkan 16.30. Þar eiga Eyjamenn möguleika á að tryggja sér Íslandsmeistaratitillinn. Ef FH-ingar vinna verður hinsvegar oddaleikur í Vestmannaeyjum næsta þriðjudagskvöld.

ÍBV 29:22 FH opna loka
60. mín. Leik lokið Eyjamenn sterkari aðilinn í dag, FH-ingar missa Ásbjörn úr leik fyrir stuttu og síðan Gísla í dag, einfaldlega of mikið.
mbl.is