Þriðji stóri titillinn í þremur löndum í röð

Stefán Rafn Sig­ur­manns­son á vítalínunni í leiknum í dag.
Stefán Rafn Sig­ur­manns­son á vítalínunni í leiknum í dag. Ljósmynd/Pick Szeged

Stefán Rafn Sig­ur­manns­son er ungverskur meistari eftir sigur Pick Szeged á Vezsprém í úrslitaeinvíginu. Stefán og félagar unnu fyrri leikinn á heimavelli 32:28 áður en þeir töpuðu 29:26 í dag og unnu því einvígið samanlagt 58:57. Mbl.is heyrði í honum eftir leikinn og var hann, að vonum, gríðarlega ánægður.

„Mér líður frábærlega. Það hefur gengið vel þessa mánuði sem ég hef verið hérna. Við lögðum dálítið grunninn að þessu í Szeged þegar við unnum fyrri leikinn með fjórum mörkum.“

„Við komum svo hingað, auðvitað með pressu, en spiluðum okkar leik og ég er ótrúlega glaður með að hafa unnið þennan titil. Szeged var ekki búið að vinna þennan til síðan 2007.“

Leikurinn í dag var æsispennandi og munaði minnstu að Veszprém næði að kreista fram sigur á lokaköflunum. Stefán var ánægður, heilt yfir, með spilamennsku liðsins.

„Við byrjuðum ótrúlega vel, fyrstu 15-20, svo missum við þetta aðeins niður, byrjum seinni hálfleikinn illa og bárum kannski fullmikla virðingu fyrir þeim. Svo tókum við bara af skarið og náðum góðum mörkum. Við vorum líka smá heppnir og þetta var bara háspennuleikur fram á síðustu mínútu.

Veszprém er vinsælasta félagslið Ungverjalands og hefur haft þvílíka yfirburði í ungversku deildinni en liðið var búið að vinna meistaratitilinn tíu ár í röð.

„Veszprém hefur verið númer eitt hérna í meira en tíu ár og hefur hreinlega verið með eignarétt á þessum bikar. Þetta er hrikalega sætt fyrir klúbbinn og mig líka.“

Stefán Rafn er farinn að spila með íslenska landsliðinu á ný og hefur nú orðið meistari í þremur mismunandi löndum, þrjú ár í röð.

„Ég er farinn að spila mjög mikið og ég er kominn á sama stað og ég var. Ég varð þýskur meistari með Rhein-Neckar Löwen, fór þaðan til Danmerkur og varð danskur meistari með Álaborg og hér er ég í dag, ungverskur meistari. Ég er kominn með þrjá titla síðustu þrjú tímabil,“ sagði Stefán sem hefur nú orðið meistari í fjórum löndum en hann varð Íslandsmeistari með Haukum.

„Ég er að spila ótrúlega vel og mér líður ótrúlega vel,“ sagði nýkrýndur og ánægður meistari að endingu.

Leikmenn Pick Szeged fagna í dag. Stefán er fjórði frá …
Leikmenn Pick Szeged fagna í dag. Stefán er fjórði frá vinstri í efri röðinni. Ljósmynd/Pick Szeged
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert