Aron bætti titli í safnið með Barcelona í kvöld

Aron Pálmarsson með skot í úrslitaleiknum í kvöld.
Aron Pálmarsson með skot í úrslitaleiknum í kvöld. Ljósmynd/Barcelona

Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik, vann titil með liði Barcelona í kvöld þegar liðið hrósaði sigri í meistarakeppni Katalóníu. Barcelona vann þá öruggan sigur á Granollers í úrslitaleik, 46:27.

Barcelona vann sem kunnugt er spænsku deildina með yfirburðum en Granollers hafnaði í þriðja sæti. Í kvöld var hins vegar engin spurning hvar sigurinn myndi enda og var staðan 25:14 í hálfleik. Aron skoraði eitt marka Barcelona í leiknum. Hann vann einnig spænsku deildina og spænsku bikarkeppnina með Barcelona á tímabilinu.

Þetta var í áttunda sinn í röð sem Barcelona vinnur þessa keppni og í 22. skipti samtals. Granollers er það lið sem hefur unnið keppnina næstoftast, eða fimm sinnum. Síðast var það tímabilið 2008-2009 þegar liðið vann Barcelona í úrslitaleik.

Þetta var síðasti leikur Barcelona á tímabilinu og einnig síðustu leikir þeirra Valero Rivera, Viran Morros, Borko Ristovski og Alexis Borges fyrir liðið. Rivera mun ganga í raðir Nantes í sumar, Morros fer til PSG, markvörðurinn Ristovski fer til Benfica og Alexis Borges snýr aftur til Porto úr láni.

Í þeirra stað hefur Barcelona tryggt sér þrjá leikmenn í sumar. Danski markvörðurinn Kevin Møller kemur frá Flensburg, Thiagus Petrus kemur frá Pick Szeged, og Casper Mortensen frá Hannover-Burgdorf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert