Hægt væri að gera góða bíómynd

Grétar Þór og Magnús Stefánsson með bikarinn á milli sín.
Grétar Þór og Magnús Stefánsson með bikarinn á milli sín. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grétar Þór Eyþórsson, annar fyrirliða nýkrýndra Íslandsmeistara ÍBV í handknattleik karla, er einn rótgróinna Eyjamanna í liði Íslandsmeistaranna. Hann kom upp í meistaraflokk fyrir 13 árum og hefur síðan gengið í gegnum súrt og sætt.

Þegar Grétar kom inn í meistaraflokk var mikið lagt undir hjá handknattleiksdeild ÍBV, bæði í kringum karla- og kvennaliðið. Sú sæla entist ekki lengi og á fáeinum árum varð handknattleiksdeild ÍBV stórskuldug. Leikmenn og stjórnendur reru lífróður um árabil til þess að afla fjár vegna tuga milljóna skulda deildarinnar. Útlitið var ekki bjart um skeið.

„Við sem skipum liðið í dag erum mótaðir af því liði sem var í uppbyggingu á erfiðu árunum frá 2007 til 2009. Þá vorum við í fjáröflunum og alls kyns vinnu fyrir deildina að minnsta kosti einu sinni í viku. Enginn tók krónu fyrir að æfa og leika fyrir liðið. Þvert á móti borguðu menn með sér. Gildin sem urðu til á þessum árum eru enn í fullu gildi. Vinnusemi og dugnaður. Fyrir þau stöndum við í dag þótt við séum komnir um langan veg á síðustu tíu árum og rofað hafi til í fjármálum deildarinnar,“ sagði Grétar Þór, sem hefur á tíðum verið álitinn vanmetnasti leikmaður ÍBV-liðsins.

ÍBV varð Íslandsmeistari í handknattleik karla í fyrsta sinn fyrir fjórum árum eftir æsilega spennandi úrslitaeinvígi við Hauka þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en á síðustu sekúndum í oddaleik í Hafnarfirði. Árið eftir varð ÍBV bikarmeistari. Agnar Smári Jónsson, Andri Heimir Friðriksson, Dagur Arnarsson, Grétar Þór, Magnús Stefánsson, Róbert Aron Hostert, Theodór Sigurbjörnsson og Sigurður Bragason voru í meistaraliðinu 2014. Þeir eru einnig í meistaraliðinu fjórum árum síðar; sá síðarnefndi nú sem aðstoðarþjálfari og af mörgum sagður vera límið á milli leikmanna annars vegar og þjálfara og stjórnar hins vegar. Fleiri voru í kringum liðið í minni hlutverkum sem einnig voru hluti af ÍBV fyrir þremur og fjórum árum.

Sjá allt viðtalið við Grétar og úttekt á Íslandsmeistaraliði ÍBV í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert