Róbert er hættur – „Kominn tími til að segja stopp“

Róbert Gunnarsson á sínu síðasta stórmóti með landsliðinu á EM …
Róbert Gunnarsson á sínu síðasta stórmóti með landsliðinu á EM í Póllandi 2016. Ljósmynd/Adam Jastrzebowski / Foto Olimpik

Hinn þrautreyndi línumaður, Róbert Gunnarsson, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna og hætta handknattleiksiðkun eftir langan feril. Hann segir ástæðuna fyrst og fremst vera þá að líkaminn sé farinn að segja til sín.

Róbert staðfestir þetta við Vísi í dag, en hann fagnaði 38 ára afmæli sínu í gær. Hann hefur verið á mála hjá Århus í Danmörku frá árinu 2016, en áður hafði hann byrjað sinn feril sem atvinnumaður þar árið 2005. Þá lék Róbert með Gummersbach og Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi auk PSG í Frakklandi. Hér heima spilaði hann með Fylki og Fram.

„Ég vildi hætta áður en líkaminn væri búinn svo ég geti spilað bolta með krökkunum og farið í hjólatúr. Maður var farinn að eiga erfitt með að standa upp úr rúminu og leggjast í það líka. Þegar koma nokkrir dagar í röð þar sem maður getur ekki labbað þá kominn tími á að segja stopp,“ segir Róbert við Vísi.

Róbert lék sinn fyrsta A-landsleik á Ásvöllum í Hafnarfirði 6. janúar 2001 gegn Frökkum. Alls hefur hann tekið þátt í 276 landsleikjum undir stjórn sex landsliðsþjálfara. Landsliðmörkin eru 773. Róbert á að baki 15 stórmót með íslenska landsliðinu, hverju einasta frá EM í Slóveníu 2004 og þangað til á EM í Póllandi 2016. Hann vann bæði silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og bronsverðlaunin á Evrópumeistaramótinu í Austurríki árið 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert