Nokkrar hræringar meðal handboltamanna

Óðinn Þór Ríkharðsson, FH, er á leið til GOG í ...
Óðinn Þór Ríkharðsson, FH, er á leið til GOG í Danmörku. Markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson rær e.t.v. á önnur mið. mbl.is/Hari

Þegar Íslandsmótinu í handknattleik er nú lokið fer hreyfing á leikmenn liðanna. Einhverjir hafa áhuga á annarri vist, annaðhvort færa sig á milli liða hér heima eða hleypa heimdraganum og spreyta sig með félagsliðum í Evrópu. Alltaf flytja einhverjir heim frá Evrópu.

Hjá félögum innanlands er ljóst að FH-ingar sjá á bak fjórum öflugum leikmönnum út í atvinnumennsku. Markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson skrifaði nýlega undir samning við Sävehof í Svíþjóð, Gísli Þorgeir Kristjánsson flytur til stórliðs Kiel, Óðinn Þór Ríkharðsson til GOG í Danmörku og yfirgnæfandi líkur eru á að Ísak Rafnsson leiki með Schwaz í Austurríki á næsta keppnistímabili.

Yfirvofandi er uppstokkun hjá nýkrýndum Íslandsmeisturum ÍBV. Agnar Smári Jónsson hefur ákveðið að ganga til liðs við Val samhliða námi í höfuðborginni. Í hans stað hafa Eyjamenn tryggt sér krafta Kristjáns Arnar Kristjánssonar, stórskyttu úr Fjölni og næstmarkahæsta manns Olísdeildarinnar í vetur. Óviss er hvort markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson og leikstjórnandinn Róbert Aron Hostert leika áfram með ÍBV.

Nánar er fjallað um helstu hreyfingar leikmanna milli liða í úrvalsdeildum karla og kvenna í handknattleik í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »