Íslendingar fjarri góðu gamni

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel í Þýskalandi, er annað árið í …
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel í Þýskalandi, er annað árið í röð illa fjarri góðu gamni á kappleikjum helgarinnar í Meistaradeild Evrópu. LjósmyndJonas Guettler

Núverandi keppnisfyrirkomulag Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla, það er að leika undanúrslit á laugardegi og úrslitaleiki á sunnudegi á sama stað, var tekið upp vorið 2010. Áður léku liðin tvö sem komust í úrslit tvo leiki, heima og að heiman, til þess að knýja fram sigurvegara. Lanxess-Arena í Köln hefur frá upphafi verið vettvangur úrslitahelgarinnar.

Úrslitin ráðast í Meistaradeild Evrópu um helgina.

Frá 2010 hefur Alfreð Gíslason farið með Kiel í úrslitahelgina í sex skipti af sjö og tvisvar unnið, 2010 og 2012, vann silfur 2014 og hafnaði í fjórða sæti 2013, 2015 og 2016. Annað árið í röð eru Alfreð og Kiel ekki í undanúrslitum í ár.

Xavier Pascual, þjálfari Barcelona, jafnaði árangur Alfreðs fyrir ári. Hann er heldur ekki með lið sitt í undanúrslitum að þessu sinni.

Aron Pálmarsson er sá íslenski handknattleiksmaður sem oftast hefur tekið þátt í úrslitahelgi Meistaradeildinnar, sex sinnum, fjórum sinnum með Kiel og tvisvar með Veszprém. Hann var í sigurliði Kiel 2010 og 2012 og fékk silfrið 2014 og 2016. Í síðara skiptið með Veszprém. Aron var í bronsliði Veszprém fyrir ári.

Guðjón Valur Sigurðsson vann Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn á ferlinum 2015 með Barcelona.

Ólafur Stefánsson er sá íslenskur handknattleiksmaður sem hefur oftast verið í sigurliði Meistaradeildar Evrópu, fjórum sinnum; 2002 með Magdeburg og 2006, 2008 og 2009 með Ciudad Real. Auk þess var Ólafur í liði Rhein-Neckar Löwen sem hafnaði í fjórða sæti 2011 og bronsliði AG Köbenhavn 2012 ásamt m.a. Arnóri Atlasyni, Guðjóni Val Sigurðssyni og Snorra Steini Guðjónssyni.

Guðjón Valur og Róbert Gunnarsson voru m.a. með Ólafi í liði Rhein-Neckar Löwen vorið 2011 undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar. Liðið tapaði fyrir HSV Hamburg, 33:31, í leiknum um þriðja sætið.

Alfreð Gíslason þjálfaði Magdeburg þegar liðið vann Meistaradeildina 2002. Hann stýrði Kiel til sigurs í keppninni 2010 og 2012. Aðeins einn þjálfari til vibótar hefur unnið Meistaradeildina með tveimur liðum, Talant Dushebajev. Hann var þjálfari Ciudad Real á Spáni þegar liðið vann keppnina 2006, 2008, 2009. Dushebajev stýrði Vive Kielce til sigurs í Meistaradeildinni fyrir tveimur árum.

Noka Serdarusic getur orðið þriðji þjálfarinn til þess að vinna Meistaradeildina með tveimur liðum. Hann stýrði Kiel til sigurs 2007 og getur endurtekið leikinn með PSG á morgun. Serdarusic átti möguleika að vinna keppnina í fyrra en þá tapaði PSG fyrir Vardar í frábærum úrslitaleik, 24:23.

Ólafur Gústafsson var í sigurliði Flensburg sem vann Meistaradeildina 2014.

Aðrir íslenskir þjálfarar en Alfreð Gíslason sem hafa komist í úrslitahelgina eru Guðmundur Þórður Guðmundsson 2011 með Rhein-Neckar Löwen og Dagur Sigurðsson með Füchse Berlín árið eftir. Báðir höfnuðu í fjórða sæti.

Guðjón Valur Sigurðsson var  fyrsti handknattleiksmaðurinn i sögunni til þess að taka þátt í úrslitahelginni með fjórum félagsliðum. Hann var með Rhein-Neckar Löwen 2011, AG Köbenhavn 2012, Kiel 2013 og 2014 og Barcelona árið eftir.

Enginn íslenskur handknattleiksmaður tekur þátt í undanúrslitum Meistaradeildar að þessu sinni. Það hefur ekki gerst áður síðan núverandi keppnisfyrirkomulag með úrslitahelgi fjögurra liða var tekið upp árið 2010.

Engu liði hefur tekist að vinna Meistaradeildina tvö ár í röð eftir að núverandi keppnisfyrirkomulag var tekið upp. Vardar á möguleika á að verða fyrst liða til þess en liðið vann keppina fyrir ári og er í undanúrslitum að þessu sinni.

Vardar og PSG leika annað árið í röð í undanúrslitum. Nantes hefur aldrei áður komist í undanúrslit Meistaradeildar.

Montpellier hefur ekki komist í undanúrslit Meistaradeildar í 15 ár en liðið vann keppnina vorið 2003 eftir sigur á spænska liðinu Portland San Antoníu, 50:46, samtals í tveimur leikjum. Portland vann fyrri leikinn á heimavelli, 27:19, og dæmdu Stefán Arnaldsson og Gunnar Viðarsson þá viðureign. Montpellier sneri við blaðinu á heimavelli og vann með 12 marka mun, 31:19. Þá var Nikola Karabatic, 18 ára gamall. Hann skoraði 17 mörk í leikjunum tveimur, þar af 11 mörk í fyrri leiknum á Spáni. Karabatic leikur nú með PSG.

Patrice Canayer sem þjálfaði Montpellier þegar liðið vann Meistaradeildina fyrir 15 árum er enn þjálfari liðsins.

Þrjú frönsk félagslið eru í undanúrslitum að þessu sinni, PSG, Montpellier og Nantes. Aldrei fyrr hafa þrjú af fjórum undanúrslitaliðum keppninnar komið frá sama landi.

Annað árið í röð er ekkert þýskt félagslið í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Talant Dusebaev er sá eini sem unnið hefur Meistaradeild Evrópu bæði sem leikmaður og þjálfari. Hann var í sigurliði Santander frá Spáni 1994 og stýrði Ciudad Real til sigurs í keppninni 2006, 2008 og 2009 sem þjálfari. Sjö árum síðar þjálfaði hann pólska meistaraliðið Vive Kielce þegar liðið vann Meistaradeildina eftir ævintýralegan úrslitaleik við Veszprém frá Ungverjalandi.

Króatíski hornamaðurinn Ivan Cupic  getur orðið fyrsti leikmaðurinn til þess að vinna Meistaradeild Evrópu þrjú ár í röð eftir að núverandi keppnisfyrirkomulag var tekið upp vorið 2010. Cupic var í sigurliði Vardar fyrir ári og með Vive Kielce fyrir tveimur árum. Cupic er enn leikmaður Vardar.

Leikið verður í Lanxess-Arena í Köln sem tekur 19.750 áhorfendur í sæti. Úrslitahelgi Meistaradeildar karla hefur farið þar fram frá 2010 og verður að minnsta kosti áfram næstu tvö árin.

Miðasala á úrslitahelgina að ári hefst í dag. Í fyrra seldust hátt í 7.000 aðgöngumiðar ári fyrir fram og ljóst að margir sem eru í Köln um helgina stefna á að mæta á næsta ári. Fjölmargir hafa fyrir reglu að koma ár eftir ár.

Áhugi fyrir leikjum keppninnar hefur einnig vaxið ár frá ári meðal þeirra sem reka sjónvarpsstöðvar en að þessu sinni eru leikir úrslitahelgarinnar sendir út til 120 landa og hafa aldrei verið fleiri.

Barcelona hefur átta sinnum unnið Meistaradeild Evrópu, 1996-2000, 2005, 2011 og 2015. Kiel hefur unnið þrisvar 2007, 2010, 2012.

Íslendingar fjölmenna til Kölnar þessa helgi eins og undanfarin ár þótt enginn íslenskur leikmaður eða þjálfari sé í eldlínunni að þessu sinni. Talið er að vel á annað hundrað Íslendingar séu í Köln beinlínis vegna helgarinnar. Þar af er um sjötíu manna hópur frá Selfossi. Flestir úr hópnum eru ungmenni úr handknattleiksakademíu félagsins, nokkuð á sjötta tuginn með þjálfurum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert