Arna Sif og Sunna til ÍBV

Arna Sif Pálsdóttir
Arna Sif Pálsdóttir mbl.is/Valgarður Gíslason

ÍBV hefur fengið mikinn liðsstyrk fyrir átökin í Olís-deild kvenna í handknattleik á næsta tímabili. Arna Sif Pálsdóttir og Sunna Jónsdóttir snúa heim úr atvinnumennsku og ganga í raðir ÍBV.

Landsliðskonan Ester Óskarsdóttir, leikmaður ársins á lokahófi HSÍ og Sandra Dís Sigurðardóttir, hafa auk þess framlengt samninga sína við ÍBV sem komst í undanúrslit Íslandsmótsins og bikarkeppninnar á síðusta tímabili. 

Línumaðurinn Arna Sif Pálsdóttir hefur leikið 129 A-landsleiki fyrir Ísland og hefur leikið erlendis um árabil. Síðast með Debreceni í Ungverjalandi en áður með Horsens, Esbjerg, Álaborg og Árósum í Danmörku auk Nice í Frakklandi. Arna er uppalin í HK. 

Sunna Jónsdóttir er uppalin í Fylki og kom við hjá Fram áður hún hélt erlendis og varð Íslandsmeistari með Fram árið 2013. Sunna hefur dvalið erlendis síðustu árin. Þar hefur hún leikið með Skara í Svíþjóð og Hald­en í Noregi eða þar til á síðasta tímabili þegar hún fór í barneignarfrí. 

Arna Sif og Sunna gerðu báðar tveggja ára samninga við ÍBV. Ættu þær að styrkja liðið verulega bæði í vörn og sókn en báðar hafa verið í stórum hlutverkum í vörn íslenska landsliðsins. 

Sunna Jónsdóttir
Sunna Jónsdóttir mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is