Fer frá Hlíðarenda og flytur til Zürich

Ólafur Ægir Ólafsson er á leið til Sviss.
Ólafur Ægir Ólafsson er á leið til Sviss. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Ægir Ólafsson hefur ákveðið að söðla um og yfirgefa herbúðir handknattleiksliðs Vals. Af þeim sökum hefur hann samið við Lakers Stäfa sem leikur í efstu deild handknattleiksins í Sviss. Tekur samningur Ólafs Ægis við Lakers Stäfa gildi í sumar og er til eins árs samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Lakers Stäfa er staðsett skammt utan við Zürich. Liðið virðist hafa rokkað á milli efstu og næstefstu deildar í svissneska handknattleiknum á síðustu árum eftir því sem næst verður komist.

Ólafur Ægir er 22 ára gamall og hefur átt sæti í meistaraflokksliði Vals síðustu árin. Hann lék m.a. stórt hlutverk í Valsliðinu sem varð Íslands- og bikarmeistari í fyrra auk þess sem Valur komst þá í undanúrslit í Áskorendakeppni Evrópu. Ólafur Ægir á að baki leiki með yngri landsliðum Íslands í handknattleik.

Ólafur Ægir skoraði 50 mörk í 22 leikjum með Val í Olísdeildinni í vetur sem leið en meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá honum um nokkurt skeið.

Auk Ólafs Víðis hafa Tumi Steinn Rúnarsson og Bjarni Ófeigur Valdimarsson ákveðið að róa á önnur mið. Sá fyrrnefndi hefur gengið til liðs við Aftureldingu en sá síðarnefndi ætlar að leika með FH. Bjarni Ófeigur gerði reyndar stuttan stans hjá Val eftir að hafa verið jafnbesti leikmaður Gróttu lengst af keppnistímabilinu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert