Hefur Björgvin aðgang að tímavél?

Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. mbl.is/Golli

Landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson segir sænska markmannsþjálfarann, Tomas Svensson, vera hvalreka fyrir HSÍ. Björgvin hefur áður unnið með Svensson en nokkuð er um liðið. 

Svensson, sem er í þjálfarateymi A-landsliðs karla, er þrefaldur Evrópumeistari, tvöfaldur heimsmeistari og þrefaldur verðlaunahafi á Ólympíuleikum frá leikmannaferli sínum og þótti einn albesti markvörður heims um árabil. 

„Ég vona að okkar markmenn geri sér grein fyrir því að það eru forréttindi að vinna með honum. Ég fékk smjörþefinn af því að æfa með honum þegar ég var ungur og var þá í markmannsskóla hjá Svíum. Hann kveikti mjög mikið í mér á sínum tíma og var fyrirmynd mín í mörg ár enda leit ég mjög upp til hans. Fyrir vikið er súrrealískt fyrir mig að sjá hann rölta inn í búningsklefa hjá okkur og vera hluta af okkar teymi í landsliðinu. Ég mun njóta þess og við þurfum að nýta hann vel í þann tíma sem hann er með okkur,“ sagði Björgvin þegar mbl.is ræddi við hann í gær. 

Þjálfarateymi landsliðsins. Gunnar Magnússon, Guðmundur Þórður Guðmundsson og Tomas Svensson.
Þjálfarateymi landsliðsins. Gunnar Magnússon, Guðmundur Þórður Guðmundsson og Tomas Svensson. mbl.is/Árni Sæberg

Hvort Björgvin hafi aðgang að gráum DeLorean liggur ekki fyrir en hann segir engu líkara en hann sé kominn aftur í tímann og færir fyrir því rök. „Mér líður svolítið eins og ég sé aftur orðinn unglingur því ég er á leið í atvinnumennsku, með Svensson á bakinu og Gumma Gumm sem landsliðsþjálfara. Á sínum tíma í kringum fór ég í markmannsskólann í Svíþjóð, fór í atvinnumennsku og Gummi valdi mig fyrst í landsliðið. Allt í einu er búið að spóla til baka um ansi mörg ár,“ sagði Björgvin og glotti en hann mun í sumar ganga til liðs við dönsku meistarana í Skjern eftir ársdvöl heima á Íslandi.

Gæti hugsað sér að spila til fertugs

Engan bilbug er að finna á markverðinum litríka þótt blaðamaður sé svo ósmekklegur að benda Björgvini á að hann sé nú á meðal elstu manna í landsliðinu þegar silfurdrengirnir eru hverjir af öðrum horfnir á braut. Hann gæti hugsað sér að spila til fertugs.

„Þótt ég sé á meðal elstu manna þá er ég samt sex árum yngri en Guðjón Valur. Ég get alltaf huggað mig við það. Ég myndi vilja sjá feril minn verða langan. Ef ég held vel á spilunum þá get ég spilað til fertugs eins og margir markmenn hafa gert. Þá ætti ég sjö ár eftir og með mann á bakinu eins og Tomas Svensson þá gæti ég varla verið á betri stað til að ná því. Ég hef alltaf litið þannig á að ég gæti átt langan feril og þótt mörg ár séu liðin þá á ég mörg eftir og mun njóta þeirra í botn. Ég vil halda áfram að bæta mig og tel mig hafa stigið skynsamleg skref á ferlinum hingað til. Nú líður mér smá eins og ég sé orðinn unglingur aftur eins og ég minntist á,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson í samtali við mbl.is. 

Ísland mætir Litháen í Vilnius á morgun klukkan 16 að íslenskum tíma í undankeppni HM. Fylgst verður með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is úr Siemens Arena í Vilnius.

Björgvin Páll Gústavsson á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.
Björgvin Páll Gústavsson á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is