Eins marks tap í Vilnius

Björgvin Páll Gústavsson hinn reyndi markvörður íslenska landsliðsins stendur á …
Björgvin Páll Gústavsson hinn reyndi markvörður íslenska landsliðsins stendur á milli stanganna í leiknum í Vilnius. Uros Hocevar,EHF

Litháen hafði betur gegn Íslandi 28:27 í fyrri leik liðanna í undankeppni HM í handknattleik karla í Vilnius í Litháen í dag. Síðari leikur liðanna fer fram í Laugardalshöllinni næsta miðvikudag og þá fær Ísland tækifæri til að tryggja sér sæti í lokakeppninni. 

Leikurinn var býsna jafn frá upphafi til enda en Ísland hafði þó þriggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik 13:10. Í síðari hálfleik sóttu Litháar verulega í sig veðrið og náðu frumkvæðinu í leiknum. Staðan var jöfn þegar tvær mínútur voru eftir en þá komu tvö mörk í röð frá Litháum sem tryggði þeim sigurinn. En spurningin er hvort eins marks forskot muni duga þeim til að komast á HM þegar uppi verður staðið eða hvort Ísland vinni stærri sigur í Laugardalnum. 

Í síðari hálfleik myndaðist stemning í litháíska liðinu og þeir fengu áhorfendur með sér. Þá náðu Litháar að skora full mörg mörk úr hraðaupphlaupum sem hafði mikið að segja þegar uppi var staðið. Því höfðu Litháar ekki náð í fyrri hálfleik en þá voru leikmenn íslenska liðsins snöggir að skila sér til baka í vörnina.

Björgvin Páll Gústavsson var valinn besti leikmaður íslenska liðsins í leiknum og var tilkynnt um það í höllinni að leiknum loknum en á að giska voru um 2-3 þúsund áhorfendur á leiknum. Björgvin varði 17 skot og þar af 2 vítaköst. Arnór Þór Gunnarsson var markahæstur í íslenska liðinu með 7/4 mörk og var öruggur á vítalínunni. Ómar Ingi Magnússon átti virkilega góðan leik og skoraði 5 mörk og það gerði Aron Pálmarsson einnig. 

Nokkrir lítt reyndir leikmenn fengu að spreyta sig í leiknum. Elvar Örn Jónsson byrjaði inn á í stöðu leikstjórnanda og komst vel frá leiknum. Hans fyrsti mótsleikur fyrir Ísland og Daníel Ingason kom við sögu í vörninni. 

Þá er nokkuð um liðið síðan þeir Vignir Svavarsson, Ólafur Gústafsson og Stefán Rafn Sigurmannsson léku mótsleik fyrir Ísland.  

Litháen 27:26 Ísland opna loka
60. mín. Björgvin Páll Gústavsson (Ísland) varði skot Litháen fær frákastið
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert