Rétt að flytja heim eftir átta ár

Fannar Þór Friðgeirsson leikur með ÍBV á næsta keppnistímabili.
Fannar Þór Friðgeirsson leikur með ÍBV á næsta keppnistímabili. Ljósmynd/tvgrosswallstadt.de

„Annaðhvort var að halda áfram úti og ljúka handboltaferlinum þar eða að koma heima núna. Eftir nokkra íhugun ákváðum við að setja punkt aftan við Þýskalandsdvölin og flytja heim,“ sagði Fannar Þór Friðgeirsson handknattleiksmaður, sem er nýjasta viðbótin í lið Íslands-, bikar- og deildarmeistara ÍBV. Eftir átta ára veru í Þýskalandi skrifaði Fannar Þór undir tveggja ára samning við ÍBV fyrr í vikunni.

„Ég var í sambandi við uppeldisfélag mitt nokkru fyrir síðustu jól. En eftir að frétt ykkar birtist í mars um að ég ætlaði ekki að vera áfram í Þýskalandi fóru hjólin að snúast af krafti og fleiri lið heima slógu á þráðinn. Erlingur Richardsson [nýr þjálfari ÍBV] setti sig meðal annars í samband við mig. Þá varð ekki aftur snúið,“ sagði Fannar Þór sem varð 31 árs síðasta sunnudag og á að baki 11 landsleiki.

Hann segir það vera spennandi og ögrandi verkefni að ganga til liðs við ÍBV eftir velgengni síðasta vetrar. Nokkrar breytingar verða á liðinu auk þjálfaraskipta. Hann segist þó ekki finna fyrir pressu enn sem komið er enda keppnistímabilið langt frá því að vera hafið.

„Það er engin pressa á mér frekar en öðrum í liðinu. Ég lít fyrst og fremst á það sem spennandi skref að fara til Eyja og taka þátt í því starfi sem þar fer fram. Menn eru greinilega að gera það gott í kringum handboltann í Eyjum,“ sagði Fannar Þór og bætti við. „Stefnan er að gera eins vel í öllum mótum á næsta keppnistímabili og komast í 16-liða úrslita EHF-keppninnar sem FH-ingar voru hársbreidd frá að komast í á síðasta vetri. Ég held að ÍBV-liðið verði ekkert síðra á næsta keppnistímabili en á því sem er nýliðið.“

Nánar er rætt við Fannar Þór í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert