Tapaði Ísland?

Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ og Guðmundur B. Ólafsson formaður …
Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ og Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ börðu í borðið í Vilnius líkt og Jón Hjaltalín Magnússon gerði forðum daga í b-keppninni í Frakklandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forráðamenn Handknattleikssambands Íslands sitja nú á fundum í Siemens Arena íþróttahöllinni í Vilnius þar sem þeir freista þess að breyta úrslitum leiksins gegn Litháen úr eins marks tapi í jafntefli. Hafa Íslendingar mikið til síns máls. 

Upplýsingar mbl.is eru fremur takmarkaðar á þessum tímapunkti en ljóst þykir að Litháar hafi fengið skráð á sig mark sem ekki átti að standa. Leikmaður Litháen skaut knettinum í markið hjá Íslandi og áhorfendur fögnuðu markinu vel. Dómararnir höfðu hins vegar dæmt ruðning þar sem Litháinn keyrði inn í Guðjón Val Sigurðsson um leið og hann skaut. Staðan var þá 17:17 og breyttist í 18:17. Í framhaldinu tók Björgvin Páll Gústavsson aukakast við vítateiginn eins og reglurnar gera ráð fyrir þegar dæmdur er ruðningur. 

Dómurinn virðist hins vegar ekki hafa náð í gegn á ritaraborðinu og eftirlitsdómarinn frá Lettlandi greip ekki til aðgerða þegar Íslendingar gerðu athugasemdir meðan á leiknum stóð. 

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, og Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri, hafa gert athugasemd við úrslit leiksins og eru vopnaðir myndbandsupptöku af atvikinu þar sem glögglega sést að dómarinn gefur merki um ruðning. Vegna athugasemda þeirra hefur ekki verið gengið frá leikskýrslunni og verður það ekki gert fyrr en dómarar leiksins eru vissir um að lokastaðan sé rétt.

Mbl.is mun fylgja málinu eftir með frekari fréttum þegar niðurstaða liggur fyrir. 

Uppfært kl 19:47: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert