Mikilvægasta markvarsla formannsins

Guðjón Valur Sigurðsson skýtur að marki Litháa í Vilnius í …
Guðjón Valur Sigurðsson skýtur að marki Litháa í Vilnius í gær.

Talsverð eftirmál urðu af leik Litháens og Íslands í undankeppni HM karla í handknattleik í Vilníus í gær þegar leikmenn liðanna höfðu yfirgefið völlinn. Stóð þá á töflunni í Siemens Arena að Litháen hefði sigrað 28:27.

Ekki voru hins vegar öll kurl komin til grafar og niðurstaða málsins varð sú að úrslitum leiksins var breytt í jafntefli 27:27 áður en leikskýrslan var undirrituð.

„Við gerðum strax athugasemdir við úrslit leiksins þar sem við töldum að það hefði verið skrifað einu marki of mikið á Litháana. Fór það þá í skoðun bæði hjá eftirlitsdómaranum og dómurunum. Við fengum upptöku frá RÚV sem sannaði okkar mál. Eftir heilmikil andmæli frá Litháunum, og yfirlegu hjá dómurunum og eftirlitsdómaranum, varð niðurstaðan sú að leikurinn endaði 27:27. Ég var liðtækur í marki í bekknum mínum í Álftamýrarskóla í gamla daga en ég verð nú að segja að þetta sé mikilvægasta markið sem ég hef varið. Ég vona að það skili okkur á HM þegar upp verður staðið,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ og lögmaður með meiru, í samtali við Morgunblaðið þegar niðurstaðan lá fyrir en framkvæmdastjórinn Róbert Geir Gíslason stóð í stappinu með honum í höllinni að leiknum loknum. Atvik sem þetta sýnir að íslensku íþróttafólki veitir ekki af fylgdarliði í keppnum þegar mikið er undir.

Litháar fengu skráð á sig mark sem ekki átti að standa. Leikmaður Litháens skaut knettinum í markið hjá Íslandi og áhorfendur fögnuðu markinu vel. Dómararnir höfðu hins vegar dæmt ruðning þar sem Litháinn keyrði inn í Guðjón Val Sigurðsson um leið og hann skaut. Í ljósi þessa er með nokkrum ólíkindum að slíkt skuli hafa farið fram hjá eftirlitsdómara og öllum á ritaraborðinu. Í framhaldinu tók Björgvin Páll Gústavsson aukakast við vítateiginn eins og reglurnar gera ráð fyrir þegar dæmdur er ruðningur. kris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert