Einstakur árangur Guðmundar Þórðar

Guðmundur Þórður Guðmundsson tekur þátt í leikjum landsliðsins af lífi ...
Guðmundur Þórður Guðmundsson tekur þátt í leikjum landsliðsins af lífi og sál af hliðarlínunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, hefur á innan við hálfu ári náð einstökum árangri sem þjálfari. Árangri sem ósennilegt er að margir handknattleiksþjálfarar hafi náð til þessa.

Undir stjórn Guðmundar Þórðar hafa tvö landslið hans tryggt sér keppnisrétt á sama heimsmeistaramótinu með nokkurra mánaða millibili. Hann var við stjórnvölin hjá landsliði Barein í byrjun ársins þegar það hafnaði í öðru sæti á Asíumeistaramótinu og öðlaðist þar með um leið þátttökurétt á HM í Danmörku og í Þýskalandi. Guðmundur lék sama leikinn í kvöld þegar íslenska landsliðið, undir hans stjórn, vann Litháa í umspilsleik um keppnisrétt á HM, 34:31.

„Það er svolítið sérstakt að eiga tvö lið á HM. Ég veit ekki hvort margir þjálfarar hafi náð þessum árangri. Mér þykir vænt um þessa staðreynd þótt ég geti vissulega bara stýrt öðru liðinu þegar á hólminn verður komið," sagði Guðmundur Þórður í samtali við mbl.is í Laugardalshöll í kvöld. 

Þótt Guðmundur Þórður muni ekki verða við stjórnvölin hjá Barein á HM í Danmörku og Þýskalandi á næsta ári þá kemur það ekki veg fyrir að annar Íslendingurinn standi í brúnni því nýverið var Aron Kristjánsson fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands ráðinn landsliðsþjálfari Bareina í handknattleik karla. Er það í annað sinn sem Aron tekur við starfi að Guðmundi því Aron var eftirmaður Guðmundar með íslenska landsliðið árið 2012. 

mbl.is