Fullyrt að Kristján taki við Löwen

Kristján Andrésson þjálfari Svía tekur við þjálfun Rhein-Neckar Löwen í …
Kristján Andrésson þjálfari Svía tekur við þjálfun Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi að ári liðnu. AFP

Kristján Andrésson, landsliðsþjálfari Svía í handknattleik karla, tekur við þjálfun þýska stórliðsins Rhein-Neckar Löwen sumarið 2019. Hann mun skrifa undir þriggja ára samning í næstu viku og verður þá formlega kynntur til leiks.

Þetta fullyrti sænska Aftonbladet í gærkvöld en um mánuður er síðan blaðið taldi sig hafa heimildir fyrir því að Kristján ætti í viðræðum við Löwen sem varð þýskur meistari í fyrra og hitteðfyrra en hafnaði í öðru sæti deildarinnar á nýliðinni leiktíð auk þess að vinna bikarkeppnina.

Aftonbladet segir enn fremur að Kristján stýri sænska landsliðinu fram yfir Ólympíuleikana 2020 en hann er með samning við sænska handknattleikssambandið fram yfir leikana. Kristján tók við þjálfun sænska landsliðsins haustið 2016. Undir hans stjórn hafnaði sænska liðið í öðru sæti á EM í janúar sl. og í fimmta sæti á HM í Frakklandi í ársbyrjun 2017.

Taki Kristján við þjálfun Löwen verður hann annar Íslendingurinn til þess að stýra liðinu. Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands, þjálfaði Löwen frá 2010 til 2014 að hann tók við þjálfun danska karlalandsliðsins.

Daninn Nikolaj Jacobsen tók af Guðmundi hjá Löwen og hjá danska landsliðinu snemma árs í fyrra. Hann ætlar að einbeita sér að danska landsliðinu en getur það væntanlega ekki fyrr en að ári liðnu gangi frétt Aftonbladet eftir en blaðið telur sig hafa skotheldar heimildir fyrir frétt sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert