Strembið en spennandi verkefni

Axel Stefánsson ræðir við leikmenn íslenska landsliðsins.
Axel Stefánsson ræðir við leikmenn íslenska landsliðsins. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta verður strembið fyrir okkur,“ sagði Axel Stefánsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik við mbl.is áðan eftir að íslenska landsliðið dróst í riðil með Tyrklandi, Makedóníu og Aserbadjan í forkeppni heimsmeistaramótsins.

„Við eigum harma að hefna á móti Makedóníu og Tyrkir hafa á að skipa fínu liði með marga góða leikmenn,“ sagði Axel og bætti við að hann þekkti enn sem komið er lítið til liðs Aserbadsjan.

„Það er alveg ljóst að við eigum fyrir höndum leiki á erfiðum útivöllum ef valin verður sú leið að leika heima og að heima,“ sagði Axel. „Ef farið verður út í að leika heima og að heiman þá byrjar undankeppnin í september og lýkur væntanlega í byrjun í desember.  Hinn kosturinn er leika á einum stað og þá verður væntanlega leikið í lok nóvember.“

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, sem staddur er á þingi Handknattleikssambands Evrópu, EHF, í Glasgow þar sem dregið var í riðla í morgun, sagði að tveir möguleikar væru fyrir hendi varðandi undankeppnina. Annars vegar að leika heima og að heima eða þá að þátttökuliðin kæmu sér saman um einn leikstað og þá verður leikin einföld umferð, þrír leiki, á fjórum dögum.  „Ég mun funda með fulltrúum þjóðanna þriggja sem við drógumst á móti í dag eða á morgun. Þá ætti að komast skýrari mynd á hvaða leið verður farin,“ sagði Róbert Geir í samtali við mbl.is.

„Þetta er fyrst og fremst spennandi verkefni fyrri okkur. Það er hinsvegar ljóst að við verðum að leika vel til komast áfram og um leið vera búin undir að allt geti gerst gegn andstæðingum sem við þekkjum ef til vill ekki mjög vel til,“ sagði Axel sem valdi í gær 28 leikmenn til æfinga með landsliðinu í lok júlí, m.a. til undirbúnings fyrir forkeppni HM.

Dregið var í fjóra riðla fyrir forkeppnina í morgun. Sigurlið hvers riðils kemst áfram í umspilsleiki fyrir HM sem fram fer í Japan í desember á næsta ári. Eins kemst það lið sem nær bestum árangri af þeim fjórum sem hafna í öðru sæti í riðlakeppninni áfram í umspilsleikina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert