Vel þekktir andstæðingar

Íslenska landsliðið fagnar sæti á HM 2019 í Þýskalandi og …
Íslenska landsliðið fagnar sæti á HM 2019 í Þýskalandi og Danmörku. mbl.is/Árni Sæberg

Seint verður sagt að íslenska landsliðið í handknattleik karla hafi í gær dregist í auðveldan riðil í lokakeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer í sameiginlegri umsjón grannþjóðanna Dana og Þjóðverja frá 10. til 27. janúar á næsta ári.

Kemur þar til að íslenska landsliðið er ekki eins hátt skrifað í handknattleiksveröldinni og fyrir um áratug eða svo og hitt að þegar komið er á heimsmeistaramót þá eru fæstir leikir auðveldir. Þeir eiga heldur ekki að vera það þótt vissulega hafi í gegnum tíðina slök lið slæðst inn á mótið.

Íslenska landsliðið mætir sem sagt Evrópumeisturum Spánverja, Króötum sem virðast verða orðnir fastir andstæðingar Íslendinga á handknattleiks- og knattspyrnuvöllum, grönnum Króata frá Makedóníu sem einnig er vel þekktur andstæðingur frá síðustu árum.

Síðast en ekki síst mæta Íslendingar landsliðum Barein og Japans. Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari er öllum hnútum kunnugur í liði Barein eftir að hafa stýrt því um nærri eins árs skeið, m.a. í Asíukeppninni fyrr á þessu ári þar sem Bareinar tryggðu sér farseðilinn á HM. Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Íslands frá 2012 til 2016, er nú landsliðsþjálfari Bareina.

Japanska landsliðið hefur einnig Íslandstengingu. Dagur Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður og áður landsliðsþjálfari Þýskalands og Austurríkis, er í brúnni hjá Japönum. Hann er með Óskar Bjarna Óskarsson, fyrrverandi aðstoðarlandsliðsþjálfara, sér til halds og trausts.

Sjá fréttaskýringuna í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert