Að þessu sinni lágu Slóvakar

U16 ára landsliðið stúlkna í handknattleik á sæti í undanúrslitum …
U16 ára landsliðið stúlkna í handknattleik á sæti í undanúrslitum Opna Evrópumótsins næsta víst. Ljósmynd/HSÍ

Stúlknalandsliðið í handknattleik, skipað leikmönnum 16 ára og yngri, fylgdi áðan eftir sigri sínum á Rússum í morgun með því að leggja Slóvaka, 27:20, fyrir stundu í síðari leik sínum í dag á Opna Evrópumótinu í handknattleik í Partille í Svíþjóð. 

Skelltum Rússum á Opna EM.

Þar er íslenska liðið í efsta sæti síns milliriðils. Liðið hefur heldur betur sótt í sig veðrið á mótinu eftir erfiða byrjun og þrjá tapleiki. Sigurinn á Slóvökum áðan var sá þriðji í röð.

Íslenska liðið var með yfirhöndina í viðureigninni við Slóvaka frá upphafi til enda. Í hálfleik var munurinn þrjú mörk, 14:11.

Síðasti leikur íslenska liðsins í milliriðli verður við landsliðs Eistlands á morgun. Með sigri tryggir Ísland sér sæti í undanúrslitum.

Mörk Íslands: Elín Rósa Magnúsdóttir 6, Selma María Jónsdóttir 4, Hanna Karen Ólafsdóttir 3, Harpa Valey Gylfadóttir 3, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 3, Rakel Sara Elvarsdóttir 2, Ída Margrét Stefánsdóttir 2, Bríet Ómarsdóttir 2, Katrín Tinna Jensdóttir 1, Valgerður Ósk Valsdóttir 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert