Óvænt framganga Íslands í Debrecen

U20 ára landslið kvenna í handknattleik á HM í Debrechen …
U20 ára landslið kvenna í handknattleik á HM í Debrechen í Ungverjalandi. Ljósmynd/Facebook

„Fyrstu leikirnir voru góðir,“ sagði Stefán Arnarson, annar þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik skipuðu leikmönnum 20 ára og yngri en liðið hefur farið af stað af krafti á heimsmeistaramótinu í Debrecen í Ungverjalandi.

Íslenska liðið sem fyrirfram var talið lakast af liðunum sex í B-riðli mótsins gerði jafntefli við Suður-Kóreu, 29:29, í fyrsta leik sínum á mánudaginn og gerði sér svo lítið fyrir og vann lið Slóvena, 24:22, í fyrradag.

„Báðir leikirnir hafa verið afar góðir af hálfu okkar. Suður-Kórea hafnaði í þriðja sæti á HM 18 ára liða fyrir tveimur árum og var saman við æfingar í mánuð fyrir mótið. Leikmenn eru sprettharðir og skemmtilegir enda var liðinu hampað fyrir mótið og það ekki að ástæðulausu. Þess vegna var mjög gott hjá okkur að ná öðru stiginu úr þeirri viðureign,“ sagði Stefán en íslenska liðið var nálægt því að fá bæði stigin, átti stangarskot á síðustu sekúndu.

Íslenska liðið fygldi jafnteflinu eftir með sigri á Slóvenum en lið þeirra hafnaði í 12. sæti á Evrópumeistaramótinu í þessum aldursflokki fyrir ári. „Við unnum afar sanngjarnan og sannfærandi sigur í leiknum þrátt fyrir að markverðir Slóvena hafi varið 24 skot,“ sagði Stefán.

Íslenska liðið lék ekki í gær en í dag mætir það rússneska landsliðinu sem talið er það sterkasta á mótinu. Hópur Rússa sem er í Debrecen varð heimsmeistari fyrir tveimur árum og varð í öðru sæti á EM í fyrra. Stefán segir ljóst leikurinn í dag verði erfiður en ekkert sé útilokað fyrirfram. Íslenska liðið mætir Kínverjum á föstudag og liði Síle á sunnudag í lokaumferð riðlakeppninnar. Tvö síðarnefndu liðin hafa tapað tveimur fyrstu leikjum sínum.

Sjá viðtalið í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert