Hafa komið öllum á óvart

Lovísa Thompson að skora í leiknum gegn Síle í gær
Lovísa Thompson að skora í leiknum gegn Síle í gær Ljósmynd/Ungverska handknattleikssambandið

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, er komið áfram í 16-liða úrslit heimsmeistaramótsins sem nú fer fram í Debrecen í Ungverjalandi.

Ísland endaði í þriðja sæti B-riðils og mætir Noregi í 16-liða úrslitum keppninnar á morgun klukkan 16:30 að íslenskum tíma.

„Það leggst mjög vel í mig að mæta Noregi í 16-liða úrslitunum. Eftir að hafa séð lokaleikinn hjá Noregi og Ungverjalandi í A-riðli þá er ég hálffegin að þurfa ekki að mæta Ungverjalandi. Ég tel okkur eiga góða möguleika gegn norska liðinu en þetta verður engu að síður mjög erfitt verkefni,“ sagði Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, annar þjálfari liðsins, í samtali við Morgunblaðið í gærdag.

„Það hentar okkur ágætlega að spila gegn Noregi. Ef við berum norska liðið saman við þau lið sem við höfum mætt í riðlakeppninni þá eru þær eflaust líkastar Slóveníu sem við unnum með tveimur mörkum. Það er margt líkt með okkur og norska liðinu sem er kannski ólíkt öðrum verkefnum okkar á þessu móti. Við erum búnar að vera að spila við lið sem spila öll mjög ólíkan handbolta og það verður gaman að undirbúa sig fyrir leikinn á þriðjudaginn.“

Fari svo að Ísland vinni Noreg í sextán liða úrslitunum mætir liðið að öllum líkindum Frökkum í átta liða úrslitum keppninnar.

„Ef við klárum okkar leik gegn Noregi mætum við að öllum líkindum Frökkum í átta liða úrslitum. Sama hvaða mótherja við fáum, þá erum við alltaf litla liðið í þessari keppni, hér eftir. Allir hérna úti búast við því að við séum að fara að tapa fyrir Noregi þannig að við höfum allt að vinna í keppninni og engu að tapa.“

Sjá allt viðtalið við Hrafnhildi í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert