Tap fyrir Noregi í hörkuleik

Mariam Eradze (13) og Berglind Þorsteinsdóttir (15) leikmenn íslenska landsliðsins …
Mariam Eradze (13) og Berglind Þorsteinsdóttir (15) leikmenn íslenska landsliðsins á HM u 20 ár landsliða í Ungverjalandi. Ljósmynd/IHF

Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, tapaði fyrir stöllum sínum frá Noregi, 35:30, í hörkuleik í 16-liða úrslitum á heimsmeistaramótinu í Debrecen í Ungverjalandi í dag. Þar með taka Norðmenn sæti í átta liða úrslitum en íslenska liðið leikur væntanlega um sæti níu til tólf á morgun.

Ekki er ljóst á þessari stundu hvaða liði verður andstæðingur þess íslenska á morgun. 

Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 15:15. Íslenska liðið var með frumkvæðið allan fyrri hálfleik. Aðal beggja liða var á sóknarleikinn. Fyrir vikið sat varnarleikurinn og markvarslan á hakanum.

Snemma í síðari hálfleik náði norska liðið frumkvæðinu sem það hélt allt til loka. Munurinn var lengst af eitt til þrjú mörk og því gefur fimm marka sigur norska liðið engan vegin rétta mynd af gangi leiksins.

Leikmenn íslenska liðsins lögðu sig fram allt til leiksloka en urðu að lokum að bíta í það súra epli að tapa. Talsvert munar þegar svo langt er liðið á langt og strangt mót að norska liðið hefur leikið einum leik færra þar sem lið Fílabeinsstrandarinnar sem átti sæti í riðli með því norska mætti ekki til mótsins. 

Lovísa Thompson átti stórleik í íslenska liðinu. Hún var markahæst með 10 mörk úr 12 skotum. Sandra Erlingsdóttir skoraði sex mörk, Berta Rut Harðardóttir og Mariam Eradze fjögur mörk hvor, Lena Margrét Valdimarsdóttir skorað tvö mörk og Berglind Þorsteinsdóttir, Elva Arinbjarnar, Ragnhildur Edda Þórðardóttir og Andrea Jacobsen eitt mark hver. 

Ástríður Glódís Gísladóttir varð níu skot í íslenska markinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert