Íslandsmeistararnir fara til Frakklands

FH og Selfoss mæta til leiks í 1. umferð EHF-bikarsins.
FH og Selfoss mæta til leiks í 1. umferð EHF-bikarsins. mbl.is/Árni Sæberg

Dregið var í 1. umferðir í Evrópukeppnum félagsliða í handbolta í dag. Karlalið Selfoss mætir Dragunas frá Litháen í fyrstu umferð EHF-bikarsins og FH mætir Dubrava frá Króatíu á sama stigi í sömu keppni. Íslandsmeistarar ÍBV koma inn í keppnina í 2. umferð og mæta PAUC frá Frakklandi. 

Fyrri leikir einvígjanna í 1. umferð fara fram 1. og 2. september og síðari leikirnir 8. og 9. september. Selfoss byrjar á heimavelli en FH byrjar á útivelli. Komist Selfoss áfram mætir liðið Ribnica frá Slóveníu og fari FH-ingar áfram bíður þeirra einvígi við Benfica frá Portúgal. 

ÍBV leikur fyrri leikinn gegn Pays d'Aix, eða PAUC Handball, á heimavelli, 6. eða 7. október og síðari leikurinn fer fram í Frakklandi 13. eða 14. október. 

Kvennalið Vals mætir HV Quintus frá Hollandi í Áskorendakeppni Evrópu, en Valur er eina kvennaliðið frá Íslandi sem sendir lið til leiks í Evrópukeppni í ár. Fyrri leikurinn fer fram á útivelli 10. eða 11. nóvember og síðari leikurinn á heimavelli 17. eða 18. nóvember. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert