Stefna á lokamót á næstu fjórum árum

Ágúst Þór Jóhannsson er orðinn landsliðsþjálfari Færeyja.
Ágúst Þór Jóhannsson er orðinn landsliðsþjálfari Færeyja. Ljósmynd/Handboltasamband Færeyja

„Þetta var ekki langur aðdragandi, kannski einhverjir tíu dagar,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, nýráðinn landsliðsþjálfari kvennaliðs Færeyja í handbolta, í samtali við mbl.is um aðdraganda þess að hann tók við liðinu. 

Ágúst heldur þjálfun kvennaliðs Vals áfram, meðfram því að stjórna færeyska liðinu. Hann er spenntur fyrir komandi verkefnum með Færeyjum. 

„Ég spáði í þetta og fékk stuðning frá handknattleiksdeild Vals. Eftir það fór ég út og leist vel á aðstæður, fólkið hjá handboltasambandinu og þeirra plön. Við viljum byggja upp landslið til framtíðar og það er efniviður til staðar. Eftir að ég fór að skoða þetta var þetta aldrei nein spurning.“

„Það er gaman að þjálfa á tveimur stöðum. Ég hef áður gert það og ég verð áfram á fullu með Valsliðið. Ég er með gott fólk þar í kringum mig, eins og hjá Færeyingunum. Það er spennandi að fara í alþjóðahandbolta. Það eru möguleikar til staðar hjá Færeyjum, þótt kvennalandsliðið sé ekki hátt skrifað.“

Hann segir markmiðið að fara með Færeyjar á stórmót innan fjögurra ára. 

„Við stefnum á að fara á lokamót innan fjögurra ára og ég vona að ég geti hjálpað þeim með það. Þetta er bæði langtímamarkmið og skammtímamarkmið. Færeyjar vilja vinna fleiri landsleiki og ég ætla að reyna að leggja mitt af mörkum. Ég hef ágætisreynslu í að þjálfa landslið og ég hef trú á þessum leikmönnum. Með skipulögðum leik er hægt að bæta gæðin heilmikið og koma þeim á næsta stað.“

Aðspurður hvort hann fái færeyska leikmenn til Vals, segir hann það óljóst. Hann vill hins vegar sjá tengingu á milli handboltans á Íslandi og í Færeyjum. 

„Ég hef ekki verið að hugsa um það núna en það er að koma færeysk stelpa í Hauka. Hún er landsliðsmanneskja og frábær leikmaður. Það gæti vel hugsast að það skapist meiri tenging á milli færeyska og íslenska handboltans. Það gæti verið sigur fyrir báða aðila,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert