Bara alls ekkert óvænt

Viktor Gísli Hallgrímsson og Haukur Þrastarson
Viktor Gísli Hallgrímsson og Haukur Þrastarson Ljósmynd/Magnús Kári

„Það er bara góð stemning í hópnum eins og við má búast eftir sigurinn. Nú er bara næsta mál að búa sig undir úrslitaleikinn,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður íslenska landsliðsins í handknattleik skipuðu leikmönnum 18 ára og yngri, eftir að liðið tryggði sér sæti í úrslitum Evrópumótsins í Króatíu í gærkvöldi. Íslenska liðið vann Króata örugglega, 30:26, eftir að hafa verið með eins til fimm marka forskot frá upphafi til enda leiksins. Staðan var 13:12 í hálfleik, Íslandi í hag.

„Við erum ekki komnir fram úr okkar væntingum með þessum árangri. Ég veit ekki hvað aðrir töldu okkur geta gert fyrir mótið,“ sagði Viktor Gísli glaður í bragði spurður hvort sæti í úrslitaleiknum væri ekki framar vonum, ekki síst í ljósi þess að Heimir Ríkarðsson, þjálfari liðsins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að stefnan hefði verið tekin á að komast í átta liða úrslit og tryggja Íslandi þar með beinan keppnisrétt í næstu lokakeppni EM og HM í þessum aldursflokki.

Ætluðu alla leið í úrslit

„Auðvitað ætluðum við alla leið í mótinu. Við höfum verið að stríða Þjóðverjum á mótum til þessa. Þeir hafa verið taldir vera með besta liðið í þessum aldursflokki áður en keppnin hófst. Þar af leiðandi fannst okkur ekkert óraunhæft að vera í hópi allra fremstu liðanna á þessu móti. Þetta er alls ekkert óvænt,“ sagði Viktor Gísli, sem reiknaði ekki með mikilli veislu eftir leikinn í gærkvöldi. „Ætli að við fáum okkur ekki vel að borða á eftir að loknum góðum teygjuæfingum. Síðan tekur við svefn og undirbúningur á morgun fyrir úrslitaleikinn. Við höldum bara okkar striki,“ sagði Viktor Gísli og var greinilega með báða fætur á jörðinni þrátt fyrir frábæran árangur.

„Það má segja að leikurinn hafi gengið eins og í sögu,“ sagði Viktor Gísli um sigurleikinn á Króötum í gærkvöldi. „Góður varnarleikur skilaði okkur sigrinum auk þolinmæði í sókninni. Síðan fengum við hraðaupphlaup til viðbótar og þar skildi á milli. Það er erfitt að stöðva okkur þegar þessi atriði ganga upp,“ sagði Viktor Gísli, sem stóð allan leikinn í marki Íslands og varði vel enda ekki amalegt að vera markvörður á bak við sterka vörn íslenska liðsins sem hefur farið á kostum í öllum leikjum mótsins. „Við gáfum tóninn strax í upphafi með sterkri byrjun og gáfum aldrei neitt eftir það sem eftir var leiksins,“ sagði Viktor Gísli um undanúrslitaleikinn í gærkvöldi.

Viðtalið við Viktor má lesa í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert