Beint í toppslag í fyrsta leiknum í Danmörku

Óðinn Þór Ríkharðsson.
Óðinn Þór Ríkharðsson. mbl.is/Árni Sæberg

Handknattleiksmaðurinn Óðinn Þór Ríkharðsson söðlaði um í sumar, fluttist til Danmerkur og gekk til liðs við GOG frá Gudme, skammt frá Óðinsvéum á Fjóni.

Óðinn Þór, sem stendur á tvítugu, hafði þá leikið um tveggja ára skeið með FH og þar áður með Fram og HK. Einnig hefur hann leikið nokkra landsleiki eftir að hafa átt fast sæti í yngri landsliðunum og var m.a. í bronsliði Íslands á HM 18 ára landsliða fyrir þremur árum.

Óðinn Þór fékk sannkallaða eldskírn með GOG í upphafsleik sínum í dönsku úrvalsdeildinni á sunnudaginn þegar GOG fékk Danmerkurmeistarana Skjern. Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmarkvörður og Tandri Már Konráðsson leika með Skjern. Úr varð hörkuleikur eins og við mátti búast. GOG vann með eins marks mun, 35:34, og skoraði Óðinn Þór fjögur mörk.

„Ég fór bara beint í toppslag í fyrsta leik. Það var alveg geggjað að ná að vinna eftir hnífjafnan leik við dönsku meistarana,“ sagði Óðinn Þór þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gær. „Næstu leikir verða í svipuðum dúr því eftir leikinn við Ringsted [í kvöld] mætum við Aalborg og Bjerringbro/Silkeborg, tveimur af toppliðum deildarinnar. Þetta er alvöru byrjun hjá okkur í deildinni,“ sagði Óðinn Þór, sem er afar ánægður með veru sína í Danmörku fram til þessa.

Fullur eftirvæntingar

Óðinn Þór segir afar vel staðið að öllu hjá félaginu. Hann hafi þegar komið sér afar vel fyrir í Óðinsvéum, sem er í hálftíma akstursfjarlægð frá Gudme þar sem bækistöðvar GOG eru. Æfingar hafi hafist um miðjan júlí og vel gangi að laga sig að breytingunum sem fylgi því að flytja til Danmerkur og koma sér vel fyrir hjá nýju félagsliði. „Liðsfélagarnir eru skemmtilegir og margt sem líkt er menningunni í kringum handboltann heima svo maður er fljótur að koma sér inn í allt sem að honum snýr. Ég er þar af leiðandi fullur eftirvæntingar vegna keppnistímabilsins sem fram undan er,“ sagði Óðinn Þór, sem strax er kominn í stórt hlutverk hjá liðinu.

Sjá allt viðtalið við Óðin í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »