Grannt er fylgst með Hauki

Haukur Þrastarson.
Haukur Þrastarson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erlend stórlið hafa sýnt hinum bráðefnilega unglingalandsliðsmanni frá Selfossi, Hauki Þrastarsyni, mikinn áhuga í sumar.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru flest stórliðin í Evrópu með Hauk inni á radarnum hjá sér.

Haukur er einungis 17 ára gamall og rétt að hefja annað árið í framhaldsskóla. Hann lék hins vegar afar vel með Selfossi í efstu deild síðasta vetur og fylgdi því eftir með stórleikjum á EM U18 ára í sumar. Var hann valinn besti maður mótsins og Ísland hlaut silfurverðlaun.

Erlendu stórliðin þurfa að gera sér það að góðu að fylgjast með Hauki úr fjarlægð fyrst um sinn því hann tekur velgengninni af stillingu.

„Jú jú, það hefur verið eitthvað um fyrirspurnir. Ég er ekki mikið að spá í það núna enda er ég í góðum málum hér á Selfossi. Ég er enn mjög ungur og er í skóla hér. Ég er ekkert að flýta mér en fæ að vita af því ef erlend lið sýna áhuga,“ sagði Haukur þegar Morgunblaðið bar þetta undir hann í gær.

Þótt jarðbundinn sé þá getur Haukur þó ekki neitað því að því fylgi góð tilfinning að atvinnumannalið séu að fylgjast með. „Ef maður heyrir að einhver hafi áhuga á því sem maður er að gera þá er alltaf gaman að því. Þá veit maður að maður er að gera eitthvað rétt,“ sagði Haukur en hann sagði að áhugi erlendra liða hefði ekki miðast við kjör hans sem besta leikmanns EM heldur hefði áhuginn verið til staðar áður eftir því sem hann best veit. „Annars velti ég því ekki mikið fyrir mér. Umboðsmaðurinn sér um þetta og það er mjög þægilegt.“

Sjá allt viðtalið við Hauk í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert