Reynslubolti í markið á Akureyri

Marius Aleksejev handsalar samning við Þorvald Sigurðsson
Marius Aleksejev handsalar samning við Þorvald Sigurðsson Ljósmynd/akureyri-hand.is

Akureyri handboltafélagi hefur borist liðstyrkur þar sem hinn 36 ára gamli Marius Aleksejev hefur skrifað undir eins árs samning við félagið. Aleksejev er þrautreyndur markvörður sem hefur leikið 102 landsleiki fyrir A-landslið Eistlands en hann lék sinn fyrsta A-landsleik átján ára gamall. Hann er 195 sentímetrar á hæð.

Hann á langan atvinnumannaferil að baki og varð tvívegis eistneskur meistari með Kehra Tallin áður en hann færði sig um set og samdi við Wacker Thun í Sviss. Hann hefur einnig leikið með Kadetten Schaffhausen, Lakers Stafa og Luzern í Sviss auk þess sem hann var um tíma á mála hjá finnska úrvalsdeildarliðinu Rihiimäen Cocks.

Hann lék fjölmarga Evrópuleiki með þessum liðum og býr yfir gríðarlegri reynslu. Á síðustu leiktíð lék hann í þýsku C-deildinni með HF Springe og hjálpaði liðinu að hafna í 4. sæti austurdeildarinnar, ellefu stigum á eftir stórliði HSV Hamburg sem vann deildina en auk HSV fóru Grosswallstadt, Ferndorf og Bayer Dormagen upp úr deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert