Þungur róður fram undan hjá Akureyri

Sverre Jakobsson þjálfari Akureyrar-liðsins.
Sverre Jakobsson þjálfari Akureyrar-liðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Akureyri handboltafélag endurheimti sæti sitt í efstu deild í vor eftir eins árs veru í neðri deildinni. Eftir fallið úr Olísdeildinni vorið 2017 lauk samstarfi Akureyrarfélaganna um liðið.

KA-menn sigldu sína leið að mestu leyti. Þeir sem eftir voru, að mestu Þórsarar að þjálfaranum Sverre Jakobssyni og örfáum öðrum undanskildum, héldu sínu striki undir merki Akureyrar handboltafélags. Akureyrarliðið vann neðri deildina, Grill 66-deildina, í vor eftir gott tímabil með 15 sigurleikjum, tveimur jafnteflum og aðeins einum tapleik.

Margt bendir til að leiktíðin sem fer í hönd verði Akureyrarliðinu erfið. Leikmannahópurinn er ungur og lítt reyndur í keppni í efstu deild. Ekki bætir úr skák að meiðsli hafa sett strik í reikninginn með þeim afleiðingum að undirbúningstíminn hefur verið erfiður samkvæmt því sem best er vitað.

Þessu til viðbótar hefur illa gengið að afla liðsstyrks. Svo virðist sem íslenskir handknattleiksmenn hafi orðið lítinn sem engan áhuga á að flytja út fyrir höfuðborgarsvæðið. Að minnsta kosti hefur það reynst fleirum en forráðamönnum Akureyrar þrautin þyngri að fá Íslendinga í hóp sinn. Af þeim ástæðum horfa Akureyringar í auknum mæli út fyrir landsteinana í leit sinni að liðsstyrk.

Gunnar Valdimar Johnsen, fyrrverandi leikmaður Stjörnunnar, er ein fárra undantekninga. Hann gekk fyrir skemmstu til liðs við Akureyrarliðið og var kærkominn liðsstyrkur.

Litháinn Karolis Stropus flutti heim í sumar eftir tvö ár nyrðra. Úkraínumaðurinn Igor Kopyshynsky er hins vegar áfram og hefur fengið landa sinn í hópinn, sem heitir Leo. Kappinn sá er rétthent skytta eftir því sem næst verður komist.

Sjá alla grein­ina um Akureyri í íþrótta­blaði Morg­un­blaðsins í dag en næstu daga er fjallað um liðin í Olís-deild karla í hand­knatt­leik

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert