Býst ekki við neinum rauðum dregli

Aron Pálmarsson í leik með Barcelona.
Aron Pálmarsson í leik með Barcelona. Ljósmynd/Barcelona

Aron Pálmarsson og félagar hans í Barcelona hefja titilvörnina á sunnudaginn en þá hefst keppni í spænsku 1. deildinni í handknattleik. Fyrsti leikur Börsunga er á útivelli gegn Alcobendas.

Aron og samherjar hans unnu alla titla sem í boði voru heima fyrir á síðustu leiktíð og um síðustu helgi vann liðið fyrsta titilinn á þessu tímabili en þá hafði Barcelona betur gegn Logrono La Rioja í hinum árlega leik í meistarakeppni Spánar. Börsungar hafa haft algjöra yfirburði á Spáni og hafa hampað meistaratitlinum undanfarin átta ár.

„Þetta er loksins að byrja og ég er mjög spenntur fyrir tímabilinu. Liðið okkar lítur vel út og þær breytingar sem voru gerðar á liðinu í sumar hafa tekist mjög vel,“ sagði Aron í samtali við mbl.is í dag.

Tveir Danir hafa meðal annars bæst í leikmannahóp Barcelona, markvörðurinn Kevin Möller kom frá Flensburg og Casper Mortensen, sem varð markakóngur þýsku 1. deildarinnar á síðustu leiktíð, frá Hannover. Þá fékk Barcelona franska línumanninn Ludovic Fabregas frá franska liðinu Montpellier sem öllum á óvart vann sigur í Meistaradeildinni síðastliðið vor.

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Ljósmynd/Barcelona

Meiðslalaus og í mjög góðu formi

„Ég er í mjög góðu formi. Ég hef verið alveg meiðslalaus og markmiðið er að láta mikið að sér kveða á tímabilinu,“ sagði Aron en hann kom til Barcelona frá ungverska liðinu Veszprém í október á síðasta ári eftir japl, jaml og fuður. Barcelona keypti upp samning hans hjá Veszprém eftir mikið þref á milli Arons og forráðamanna Veszprém sem hótuðu honum keppnisbanni.

„Það gekk mikið á í fyrra en nú heyrir þetta sögunni til. Nú hef ég getað einbeitt mér hundrað prósent að handboltanum og fengið gott undirbúningstímabil með Barcelona sem ég fékk ekki í fyrra. Metnaðurinn er mikill hjá Barcelona og stefna okkar er að berjast um alla titla sem í boði eru. Meistaradeildin var mikil vonbrigði hjá okkur á síðasta tímabili en nú á að breyta því,“ sagði Aron.

Barcelona féll úr leik í 16-liða úrslitunum á síðasta tímabili þegar það tapaði fyrir Montpellier sem fór alla leið í keppninni og varð Evrópumeistari. Aron og félagar hefja leik í Meistaradeildinni á miðvikudaginn en þá mætir liðið þýska liðinu Rhein-Neckar Löwen en með Löwen leika sem kunnugt er þeir Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson. Það er enginn smáriðill sem Barcelona er í en þar má nefna Löwen, Evrópumeistara Montpellier, Vardar frá Makedóníu, sem vann Evrópumeistaratitilinn í fyrra, pólska liðið Kielce og hina gömlu lærisveina Arons í Veszprém.

„Það verður hrikalega gaman að mæta öllum þessum stóru liðum og sérstaklega er ég spenntur að spila við Vezsprém á útivelli. Ég býst ekki við neinum rauðum dregli fyrir mig og ég reikna ekki með því að ég fái góðar móttökur en í þannig kringumstæðum líður mér oft best,“ sagði Aron Pálmarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert