Þýðir ekki að fara í kraftakeppni

Ásbjörn Friðriksson
Ásbjörn Friðriksson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við áttum mjög góðan leik í heildina. Við spiluðum agaðan og góðan sóknarleik og stjórnuðum tempóinu í leiknum sem varð til þess að þeir lentu í vandræðum með okkur,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, spilandi aðstoðarþjálfari handboltaliðs FH, í samtali við mbl.is er hann var spurður út í króatíska liðið Dubrava. FH lagði Dubrava á útivelli, 33:29, í fyrri leik liðanna í EHF-bikarnum um síðustu helgi. 

„Við spiluðum flottan varnarleik og Birkir [Fannar Bragason] var flottur þar fyrir aftan. Það skilaði nokkuð öruggum sigri. Það voru einhverjar fimm mínútur sem voru óagaðar og þá misstum við forskotið en við vorum fljótir að ná því aftur með góðum leik síðasta korterið.“

FH fær Dubrava í heimsókn í síðari leik liðanna annað kvöld. Hann segir Dubrava spila hefðbundinn austurevrópskan handbolta, þar sem leikmenn eru stórir og sterkir. 

„Þetta er aðeins öðruvísi handbolti. Þeir eru með tvo til þrjá virkilega stóra leikmenn sem eru rúmlega tveir metrar. Aðrir útileikmenn eru í kringum tvo metra og býsna flinkir. Þetta er nokkuð týpískur austurevrópskur handbolti.

Við erum teknískari og með meiri snerpu. Við erum betri en þeir þegar kemur að gæðum í handbolta. Við verðum að nýta okkur styrkleika á móti þeim. Það þýðir ekki að fara í einhverja kraftakeppni. Við þurfum að finna laus svæði og vinna stöðuna einn á einn á stórum svæðum.“

Skemmtileg áskorun

Lið FH er nokkuð breytt frá því á síðustu leiktíð og eru leikmenn á borð við Gísla Þorgeir Kristjánsson, Ísak Rafnsson, Óðin Þór Ríkarðsson og Ágúst Elí Björgvinsson horfnir á braut. Aðrir leikmenn hafa komið í staðinn og spiluðu þeir Birgir Már Birgisson og Bjarni Ófeigur Valdimarsson m.a. vel í Króatíu. 

„Þetta er skemmtileg áskorun. Það eru tvær stöður um það bil sem eru breyttar í byrjunarliðinu. Það tekur smátíma að fá takt í bæði sókn og vörn. Þetta hefur verið að slípast vel síðustu vikur og vonandi heldur það áfram á morgun og við verðum betri eftir því sem líður á tímabilið,“ sagði Ásbjörn Friðriksson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert