FH komið í aðra umferð

Bjarni Ófeigur Valdimarsson tekinn föstum tökum í dag.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson tekinn föstum tökum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

FH er komið áfram í aðra umferð í EHF-keppninni í handknattleik þrátt fyrir tveggja marka tap á heimavelli í kvöld í síðari viðureigninni við RK Dubrava frá Króatíu, 32:30. FH vann fyrri viðureignina með fjögurra marka mun og leikina tvo samanlagt, 63:61. Í næstu umferð mætir FH liði Benfica frá Portúgal. Leikirnir fara fram í fyrri hluta næsta mánaðar.

Varnarleikurinn var ekki í aðalhlutverki hjá liðunum á upphafsmínútum leiksins. Skorað var úr hverri sókn. FH-liðið var fyrr að koma undir lekann. Um leið og það gerðist tók liðið af skarið og lék vel og náði um skeið fjögurra marka forskoti, 10:6, eftir um 13 mínútna leik.  Leikmenn Dubrava bættu varnarleik sinn, lokuðu fyrir línu- og hornaspil FH. Á sjö mínútna kafla skoruðu gestirnir fjögur mörk í röð og jöfnuðu metin í 10:10. Þá voru tíu mínútur til leiksloka. Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, brá á það ráð að taka leikhlé og koma stjórn á leik sinna manna. Það heppnaðist og FH-liðið svaraði með 6:1-kafla og nýtti m.a. vel að vera um skeið manni fleiri. Leikmenn Dubrava löguðu aðeins stöðuna fyrir lok hálfleiksins en þá munaði tveimur mörkum, 16:14.

Birgir Örn Birgisson fór á kostum í fyrri hálfleik og skoraði sex mörk. Honum er ætlað að fylla skarð það sem Óðinn Þór Ríkharðsson skildi eftir sig þegar hann fór til Danmerkur í sumar. Ljóst virðist að FH-ingar hafa hitt á mann sem er ekki ósvipaður Óðni um margt.

Fyrri hálfleikur var nokkuð sveiflukendur en yfirhöfuð var FH-liðið sterkara með léttleikandi leik, afar ólíkum þeim sem Dubrava-menn buðu upp á. Leikmenn Dubrava eru hávaxnir og þreknir og lítt gefnir fyrir að keyra upp hraðann og unnu mikið maður á mann og voru sérstaklega ginnkeyptir fyrir að nýta sér línumann liðsins.

FH-ingar komust fjórum mörkum yfir snemma í síðari hálfleik. Gestirnir gáfu hins vegar ekkert eftir. Þeir bitu frá sér og náðu að vinna með tveggja marka mun, 32:30. Það dugði þeim ekki.

Þrátt fyrir tap var FH alltaf með tök á leiknum en hins vegar var e.t.v. alveg óþarfi að tapa leiknum. Nokkuð dró þó af leikmönnum liðsins þegar á leið. Varnarleikurinn datt niður, markvarslan var engin og sóknarleikurinn varð þunglamalegri eftir lengst af góðan fyrri hálfleik.

Birgir Örn Birgisson var markahæstur hjá FH með níu mörk. Arnar Freyr Ársælsson var næstur með sjö mörk.

Tölfræðina í heild má sjá hér að neðan.

FH 30:32 RK Dubrava opna loka
60. mín. Leik lokið FH er þar með komið áfram í aðra umferð eftir samanlagðan sigur 63:61. FH mætir Benfica frá Portúgal í næstu umferð sem fram fer í október.
mbl.is