Slökuðum óþarflega mikið á

Birgir Örn Birgisson, Ágúst Birgisson, Einar Rafn Eiðsson, Ásbjörn Friðriksson ...
Birgir Örn Birgisson, Ágúst Birgisson, Einar Rafn Eiðsson, Ásbjörn Friðriksson og Bjarni Ófeigur Valdimarsson leikmenn FH gleðjast eftir að hafa tryggt sér sæti í annarri umferð EHF-keppninnar í handknattleik í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var fínn leikur hjá okkur í 45 til 50 mínútur,“ sagði Ásbjörn Friðriksson leikmaður FH og aðstoðarþjálfari eftir að liðið tryggði sér sæti í annarri umferð EHF-keppninnar í handknattleik í kvöld þrátt fyrir tveggja marka tap, 32:30, fyrir RK Dubrava frá Króatíu í síðari viðureign liðanna í fyrstu umferð í Kaplakrika í kvöld.

„Eftir 50 mínútur voru við komnir með samtals um átta marka forskot eftir tvo leiki. Þá slökuðum við óþarflega mikið á en það kom aldrei upp sú staða að við værum á leið út úr keppninni. En það var lélegt af okkar hálfu að slaka svona mikið á lokakaflanum. Það er skemmtilegra að vinna á heimavelli,“ sagði Ásbjörn en FH vann samanlagt 63:61 í leikjunum tveimur. „Það var ekki eins og leikmenn Dubrava hefðu haft trú á að þeir væru að snúa taflinu við eftir 50 mínútur í leiknum í kvöld.“

Ásbjörn sagði að fyrri leikurinn ytra og stærsti hluti leiksins í kvöld gæfi ágæt fyrirheit vegna næstu leikja hjá FH-liðinu sem hefur þátttöku á Íslandsmótinu á miðvikudagskvöldið með heimsókn til erkifjendanna í Haukum.

„Það er krydd í tilveruna að fá tækifæri til að taka þátt í Evrópukeppninni og sjálfsagt að nýta þann kost þegar hann gefst. Út úr þessu fást hörkuleikir auk þess sem verkefnið hristir hópinn vel saman. Í næstu umferð mætum við Benfica frá Portúgal sem verður án efa mjög skemmtilegt verkefni. En áður en að því kemur verðum við að einblína á upphafsleikina á Íslandsmótinu,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, leikmaður handknattleiksliðs FH.

mbl.is