Duttum strax ofan í forarpytt

Rúnar Sigtryggson, þjálfari Stjörnunnar, fer yfir leikinn með sínum mönnum …
Rúnar Sigtryggson, þjálfari Stjörnunnar, fer yfir leikinn með sínum mönnum í einu af leikhléum sem hann tók í viðureigninni við Aftureldingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eftir góða stígandi á undirbúningstímanum hjá okkur óttaðist ég það svolítið að menn færu út úr kerfinu í einstaklingsleik þegar komið væri út í mótsleik. Það gekk því miður eftir,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir að hann stýrði liðinu í fyrsta sinn á Íslandsmótinu í handknattleik í kvöld þegar Stjarnan steinlá fyrir Aftureldingu á heimavelli, 27:22, eftir að hafa verið langt undir lengst af leiknum.

„Aftureldingarliðið tók fast á okkur strax í upphafi og við bökkuðum og töpuðum hausnum alltof fljótt. Með svona frammistöðu erum við bara að gefa andstæðingum okkur það til kynna að það sé nóg að berja á okkur í upphafi leiks og þá sé leikurinn unnin,“ sagði Rúnar sem var afar vonsvikinn yfir framgöngu sinna manna sem voru ekki með í leiknum á löngum köflum.

„Fyrir utan þetta allt saman þá erum við lélegir á boltanum, erum lengi í gang í sókninni. Leikmenn sem við stólum á verða að taka af skarið í leikjum. Við bíðum eftir þeim. Þeir verða að blómstra en munu sannarlega ekki gera það ef þeir sýna ekki af sér meiri djörfung en þeir gerðu að þessu sinni. Það er alveg ljóst. Þess utan voru skotin slök hjá okkur. Sem dæmi má nefna að við skorum varla mark úr horni eða af línunni,“ sagði Rúnar sem tók við þjálfun Stjörnuliðsins í sumar þegar hann flutti heim frá Þýskalandi eftir sex ára veru þar við þjálfun.

„Því miður féllum við ofan í forarpytt snemma leiks og náðum okkur aldrei upp úr honum,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir tapið fyrir Aftureldingu á heimavelli í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert