Erum tveimur færri síðustu tíu mínúturnar

Hreiðar Levý Guðmundsson
Hreiðar Levý Guðmundsson Ljósmynd/Grótta

Gróttumenn gerðu góða ferð til Vestmannaeyja þar sem liðið sótti stig gegn meisturum ÍBV. Liðið var í raun grátlega nálægt því að taka bæði stigin þar sem staðan var 11:18 í hálfleik og leiddi Grótta með fimm mörkum þegar fimm mínútur voru eftir.

Einar Jónsson, þjálfari Gróttu, var hvergi sjáanlegur eftir leik en hann hefur víst tekið sér langan göngutúr eftir þennan rosalega lokakafla. Hreiðar Levý Guðmundsson, reyndasti leikmaður Gróttu, var þó á staðnum og svaraði spurningum blaðamanns og viðurkenndi að hann hefði þegið stigið fyrir leik.

„Fyrirfram hefði það verið sterkt en eftir á er það svekkjandi,“ sagði Hreiðar en hann segir að nokkrir samverkandi þættir hafi gert það að verkum að liðið missti niður þetta forskot.

„Þetta var týpískt, smá reynsluleysi, óheppni og alls konar. Það byrjaði einhver ákveðinn spírall og stress, svo er okkur hent út af mikið, erum tveimur færri síðustu tíu mínúturnar nánast. Það hjálpar ekki, mér fannst dómararnir dæma ágætlega og gera vel. Það var eins báðum megin heilt yfir, en svo féllu þeir aðeins í gryfjuna fannst mér, þeir eltu þessi öskur í ÍBV-mönnum. Þeir gera það auðvitað ef það virkar og allt það, ekkert út á það að setja, en það var erfitt að vera tveimur færri svona mikið, það var stærsta ástæðan fyrir þessu. Við klúðruðum auðvitað nokkrum færum líka en í stuttu máli var þetta svona.“

Ég hef fengið smá afslátt frá æfingum

Ef horft er framhjá síðustu tíu mínútum leiksins þá spilar Grótta frábæran leik í dag.

„Strákarnir allir mega vera ótrúlega stoltir af sér, auðvitað erum við svekktir að hafa ekki unnið og allt það en nú förum við í dallinn og getum verið stoltir af okkur. Við reynum að byggja á þessu og nýta þetta í sjálfstraust áfram,“ segir Hreiðar Levý en lið Gróttu hefur misst mikið af leikmönnum frá síðustu leiktíð en fengið inn unga leikmenn í staðinn.

„Það er auðvitað bara einn leikur búinn, eitt stig, gott stig og allt það. Þetta er samheldinn hópur og það er góður andi í liðinu, menn eru búnir að æfa gríðarlega vel, sérstaklega útileikmennirnir, ég fékk smá afslátt. Ég kem sterkari inn þegar líður á, það er gott hjarta í þessu liði og ég hef fulla trú á að þetta verði ágætis vetur hjá okkur.“ Einn besta leikmann gestanna vantaði í liðið í dag en Jóhann Reynir Gunnlaugsson var ekki með, hvers vegna ekki?

„Hann var bara ekki kominn með leikheimild. Hann er hörkuleikmaður, hörkufínn varnarmaður og hörkugóður sóknarmaður, að eiga hann inni er frábært. Leikmenn eru að nýta tækifærið og kaupa sér mínútur í framhaldinu eins og Gellir (Michaelsson) sem kom sterkur inn og fæstir þekkja. Líka Magnús Öder, þeir eru að sýna að þeir eiga fullt erindi í þessa deild og eru að kaupa sér mínútur í framhaldinu.“

Auðvelt að vanmeta okkur

Gróttu var ekki spáð góðu gengi á tímabilinu og oftast á bilinu 9.-10. sæti, er það eitthvað sem kveikir í leikmönnum liðsins?

„Mér finnst allavega betra að okkur hafi verið spáð þarna heldur en einhverjum af sætunum fyrir ofan. Þó að það sé ekki nema einhver smá neisti sem þetta kveikir þá munar um allt. Þetta skiptir samt engu máli en fyrsta markmiðið er að tryggja sætið, svo er bara að reyna að ná í sem flesta punkta og sjá hvert það leiðir okkur, allavega fyrst að tryggja sætið.“

Heldur Hreiðar að leikmenn ÍBV hafi vanmetið lið Gróttu?

„Alveg örugglega, engin spurning, þeir taka Framarana mjög öruggt í leiknum um meistara meistaranna og það er mjög auðvelt að vanmeta okkur. Þeir tóku okkur auðveldlega í fyrra og svo þekkja þeir örugglega fæsta sem eru á skýrslu, þeir þekkja kannski helminginn, auðvitað hafa þeir búist við að þetta yrði auðveldur leikur. Þeir ætluðu örugglega að klára okkur sem fyrst, ætli það hafi ekki verið markmiðið,“ sagði Hreiðar að lokum en vert er að taka fram að ÍBV náði aldrei að komast yfir í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert